133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[15:36]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að frumvarp um íslenska skipaskrá sé komið á þann rekspöl að við séum að afgreiða það á þinginu, þ.e. frumvarp um íslenska alþjóðlega skipaskrá. Málið hefur verið í umræðunni nokkuð mörg ár án þess að nokkuð fengist að gert. Þrátt fyrir baráttu formanns hv. samgöngunefndar Guðmundar Hallvarðssonar og allra samgöngunefndarmanna, sem hafa ítrekað tekið málið upp, hefur það ekki fengið framgang. Skipin hafa farið úr landi. Það er því fagnaðarefni að við skulum ná þessum áfanga og vonandi skilar það því að kaupskipin koma aftur inn.

Við höfum deilt um 11. gr. eins og hún var sett fram í frumvarpinu þar sem kveðið var á um að ráðningar skipverja gætu verið með ýmsu móti, meira að segja var kveðið á um það í greinargerðinni að útgerð skipsins gæti samið einhliða við einstaka skipverja. Ég vildi aðeins hnykkja á og spyrja hv. þingmann hvort sá skilningur minn væri réttur, að eins og við afgreiðum málið falli slíkt burt þannig að eðlilegir samningar gildi og ráða þurfi alla skipverja samkvæmt kjarasamningum en ekki einhliða samningum milli útgerðar og einstaklingsins. Ég vil árétta að ég tel mikilvægt að starfsmenn á kaupskipum séu ráðnir á íslenskum kjarasamningum. Það er mitt sjónarmið.