133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[15:39]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. Jóns Bjarnasonar vildi ég vitna til síðustu málsgreinar 11. gr., sem hann gat um. Í frumvarpinu segir:

„Um kjör skipverja í áhöfn kaupskips fer eftir þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið við stéttarfélög viðkomandi ríkja þar sem skipverji á lögheimili. Kjarasamningur gildir einungis fyrir félaga í því stéttarfélagi og ríkisborgara þess ríkis sem stéttarfélag á lögheimili í, enda eru þeir ekki í öðrum stéttarfélögum sem gerður hefur verið kjarasamningur við.“

Síðan kom breytingartillaga í nefndinni sem var á þann veg að fyrir þá sem ekki væru á þessum kjarasamningum yrði miðað við lágmarkskjör eftir ITF-samningum, samningum Alþjóðaflutningaverkamannasambandsins. Í viðræðum okkar við aðila, fulltrúa sjómanna, útgerðarmanna og Alþýðusambandsins, varð úr að 4. málsgr. 11. gr. var felld út og jafnframt sambærileg ákvæði í umsögninni.

Það er því rétt að eins og getið er um í tillögunni á 4. málsgr. 11. gr. að falla brott. Þess er sérstaklega getið í nefndarálitinu.