133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[15:40]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sagði í umræðum um þetta mál: Loksins, loksins! Loksins kemur þetta fram og hefði betur komið fram tíu árum fyrr. En betra er seint en aldrei. Og þó, ef til vill er ekki nógu langt gengið. Í svari við spurningu til fulltrúa skipafélaganna á fundi samgöngunefndar kom fram að ekki væri nógu langt gengið í skattalegu hagræði til að skipin mundu flytjast heim í alþjóðlega íslenska skipaskrá. Það er synd ef svo verður. Ég vona sannarlega að þetta gangi og skipafélögin sjái hag sinn í því að koma með skipin aftur heim og skrá þau hér.

Ég vil líka taka undir og fagna því að síðasta málsgrein 11. gr., sem var mikið deiluefni milli aðila vinnumarkaðarins, sérstaklega voru fulltrúar ASÍ sem kom fram á fundi nefndarinnar henni mótfallnir. Sú málsgrein er felld út og þannig komið til móts við afstöðu ASÍ.

Rétt í lokin þá segi ég, þótt það falli frekar undir efnahags- og viðskiptanefndarfrumvarpið en tengist þessari skattlagningu kaupskipaútgerðar, að ég fagna því sem þar er verið að gera, veita skattaívilnun fyrir atvinnustarfsemina til þess að freista þess að fá hana heim aftur.

Ég vona að svigrúm skapist til að skipafélög, sem koma þá inn á hina alþjóðlega íslenska skipaskrá, taki upp strandsiglingar á ný, með eða án ríkisaðstoðar. Það er brýnt að strandsiglingar verði teknar upp á ný, bæði til að taka flutninga af þjóðvegunum og létta umferð af þeim, m.a. vegna umferðaröryggis.

Hér er stigið skref í skattalegri ívilnun til atvinnurekstrar sem ég fagna mjög. Ég vil líka segja, virðulegi forseti, að hér er komið fordæmi fyrir skattalegri ívilnun til atvinnustarfsemi sem ég held að við getum notað okkur síðar meir ef við viljum létta undir með atvinnurekstri, t.d. á svæðum sem eiga í erfiðleikum. Hér er komin forskrift frá hæstv. fjármálaráðherra. Ég hef barist fyrir þessu lengi og hvatt til þessa og ég fagna því að frumvarpið skuli komið fram.