133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

vegalög.

437. mál
[15:48]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti samgöngunefndar um frumvarp til vegalaga.

Nefndin hefur fjallað ítarlega um málið og fengið á sinn fund fjölda gesta og enn fremur fjölmargar umsagnir.

Markmið þessa frumvarps er að skilgreina nánar ábyrgð á veghaldi og stuðla að öruggari samgöngum. Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru m.a. eftirfarandi: Í fyrsta lagi er lögð til breytt flokkun vega þar sem m.a. er kveðið á um stöðu almennra stíga. Í öðru lagi er lagt til að vegamálastjóri hafi skýra heimild til að framselja veghald til þriðja aðila. Í þriðja lagi er lagt til að heimild til gjaldtöku vegna byggingar og reksturs samgöngumannvirkja verði almenn í stað þess að mælt verði fyrir um sérstaka lagasetningu fyrir slíka gjaldtöku vegna einstakra verkefna hverju sinni. Í fjórða lagi er lagt til að heimilt verði að veita fé til almennra stíga af fjárveitingum til vegagerðar. Í fimmta lagi er lagt til að hlutverk Vegagerðarinnar sem umsagnaraðila um áhrif skipulags á umferð um þjóðvegi verði skýrt nánar. Í sjötta lagi eru skyldur Vegagerðarinnar til að vanda sérstaklega til undirbúnings ákvörðunar um eignarnám áréttaðar þannig að réttaröryggi borgaranna sé tryggt. Í sjöunda lagi eru reglur um girðingar með vegum einfaldaðar og kveðið á um heimild fyrir Vegagerðina til að taka þátt í kostnaði við gerð ganga fyrir búfé.

Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

1. Lagt er til að í stað orðsins „sveitarstjórn“ í 1. og 2. mgr. 14. gr., 2. mgr. 44. gr. og 2. mgr. 52. gr. komi „sveitarfélag“.

2. Lagt er til að í c-lið 2. mgr. 18. gr. verði tiltekið að aukist umferð verulega umfram það sem gert var ráð fyrir þegar skipulag var staðfest eða þegar af öðrum ástæðum mátti ekki reikna með að umferðarhávaði yrði yfir leyfilegu hámarki beri Vegagerðin að minnsta kosti helming kostnaðar. Í framangreindum tilvikum þykir eðlilegt að sveitarfélag og veghaldari beri að mestu leyti saman áhættuna af þessu og þar með þeim kostnaði af hávaðavörnum sem nauðsynlegar reynast vegna þess að umferð eykst umfram það sem spáð var. Í samræmi við þetta er lagt til að Vegagerðin greiði að lágmarki helming kostnaðar í slíkum tilvikum og að Vegagerðin og viðkomandi sveitarfélag nái samkomulagi um þann kostnað sem eftir stendur.

3. Lagt er til að 20. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að kveðið verði á um að við lagningu nýs héraðsvegar að íbúðar- eða atvinnuhúsnæði skuli skráður eigandi fasteignarinnar greiða helming kostnaðar við vegagerðina, þar með talið kaup á landi undir veginn, hönnun, byggingu vegarins og eftirlit með gerð hans, enda sé lega og gerð vegar ákveðin í samráði við hinn skráða eiganda fasteignarinnar. Með þessari breytingu leggur nefndin til að veghaldara verði heimilt að leggja á skráðan eiganda fasteignar að taka þátt í hluta kostnaðar við lagningu nýs héraðsvegar að fasteign hans. Meðal helstu raka fyrir þessu er að forræði og ákvörðunarvald í skipulagsmálum og búsetuþróun innan sveitarfélags er í höndum viðkomandi sveitarfélags yfir veghaldi héraðsvega. Samkvæmt gildandi lögum er sveitarfélagi heimilt að leggja á gatnagerðargjald til að standa straum af gatnagerð í þéttbýli. Eðlilegt þykir að réttarstaða íbúanna sé sambærileg hvað snertir vegtengingu og kostnað vegna hennar, hvort sem búseta er í dreifðri eða þéttri byggð, og er með þessari breytingu stefnt að því. Því er lagt til að veghaldari hafi hliðstæða heimild til þess að fara fram á kostnaðarhlutdeild við lagningu vegar í dreifðri byggð sem byggist á raunkostnaði. Þannig er veghaldara heimilt að leggja á skráðan eiganda fasteignar að greiða helming raunkostnaðar af lagningu nýs héraðsvegar. Ef um fleiri en einn eiganda er að ræða skiptist kostnaðarhlutdeildin í samræmi við það. Nefndin telur eðlilegt að samráð verði haft við fasteignareiganda um gerð og legu vegar enda kemur hann til með að taka þátt í kostnaði við hann.

4. Lagt er til að í 2. mgr. 28. gr. verði sérstaklega tiltekið að sveitarstjórn sé óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar um legu þjóðvega ef það leiðir til minna umferðaröryggis en tillagan felur í sér. Með þessari breytingu er leitast við að tryggja að sveitarstjórn taki við beitingu skipulagsvalds síns fullt tillit til sjónarmiða um umferðaröryggi þegar lega þjóðvega er ákveðin. Nefndin telur þessa breytingu nauðsynlega í ljósi skýrra markmiða umferðaröryggisáætlunar stjórnvalda um fækkun umferðarslysa og kröfu þjóðfélagsins almennt um að umferðaröryggi njóti forgangs á öllum sviðum. Í þessu sambandi ber að nefna að gert er ráð fyrir að tillögur Vegagerðarinnar um umferðaröryggi séu studdar viðurkenndu mati á umferðaröryggi mismunandi valkosta og m.a. stuðst við sérstaka umferðaröryggisrýni sérfræðinga á því sviði. Í samræmi við framangreint er lagt til að fellt verði út orðið „umferðaröryggis“ í 3. mgr. 28. gr.

5. Lagt er til að í stað orðanna „ákvörðun eignarnámsbóta“ í 2. mgr. 38. gr. komi „framkvæmd eignarnáms“ í samræmi við rétt heiti laganna.

6. Lagt er til að fyrirsögn 59. gr. verði Refsing í stað Viðurlög.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hjálmar Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Anna Kristín Gunnarsdóttir, Kristján L. Möller, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Kristinn H. Gunnarsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Jón Bjarnason sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er andvígur áliti þessu.