133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

almenn hegningarlög.

20. mál
[16:33]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans góðu orð í tengslum við málið og jafnframt vil ég nota tækifærið og þakka nefndarmönnum í allsherjarnefnd fyrir mjög gott samstarf. Það skal segjast alveg eins og er að þetta var langviðamesta málið sem við höfðum til umfjöllunar í nefndinni í vetur og skyldi engan undra þegar fyrir nefndinni liggur þetta 50 síðna frumvarp.

Ég vil ítreka aftur þakkir mínar til Ragnheiðar Bragadóttur sem aðstoðaði nefndina við að greina einstök lögfræðileg álitaefni sem tengjast þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér. Ragnheiður kom einnig, eins og ég gat um áðan, okkur til aðstoðar við að greina ábendingar umsagnaraðila. Þetta hefur verið heilmikil vinna sem hefur m.a. byggst á góðu samstarfi við hana en ekki síður í nefndinni.

Ég vil geta þess jafnframt að fyrir nefndinni lágu ýmis önnur mál sem eiga ýmist beina eða óbeina skörun við það mál sem hér er til umfjöllunar og þá ýmist kynferðisbrotakaflann beint eða óbeint eða önnur ákvæði hegningarlaganna með einum eða öðrum hætti.

Ég vil geta þess að í tengslum við afgreiðslu málsins varð nefndin sammála um það að frumvarp sem lá fyrir þinginu um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála og almennum hegningarlögum, svokallað brottvísunar- og heimsóknarbannsmál sem oft er kennt við hina austurrísku leið, yrði tekið til umfjöllunar í nefndinni. Nefndin varð ásátt um það í tengslum við afgreiðslu þess máls sem við fjöllum um að beina því til ríkisstjórnarinnar að kanna hvort rétt væri að fara þá leið að íslenskum lögum. Jafnframt varð nefndin sammála um það að annað þingmál sem fjallar um Evrópuráðssamninginn um fórnarlamba- og vitnavernd yrði sent til ríkisstjórnar til frekari skoðunar. Það mál snýst um að fullgilda þann samning og taka til skoðunar með hvaða hætti það verður best gert að íslenskum lögum. Í því tiltekna frumvarpi er í sama efni gengið ívið lengra en samningurinn áskilur og það fer þá til skoðunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar með hvaða hætti heppilegast þykir að innleiða þann samning. Þetta eru sem sagt í heildina gríðarlega umfangsmikil og stór mál. Við höfum jafnframt afgreitt út úr nefndinni frumvarp sem fjallar um aðgerðir gegn mansali.

Ég vil segja að bæði hjá einstökum þingmönnum á hinu háa Alþingi og ekki síður fyrir frumkvæði dómsmálaráðuneytisins er búin að fara fram gríðarlega mikil skoðun og vinna í þeim málaflokkum sem undir ráðuneytið heyra. Við höfum verið með mörg mikilvæg framfaramál til skoðunar á kjörtímabilinu og mér finnst það mikið fagnaðarefni að við skulum hafa náð saman um þær breytingar sem er að finna í frumvarpinu.

Ég ítreka það sem fram kom í fyrra máli mínu að auðvitað eru efnisatriði í málinu sem menn þekkja sem fylgst hafa með frumvarpinu sem flokkarnir hafa ekki verið að fullu einhuga um. Ég get nefnt til að mynda fyrningar kynferðisbrota og auðvitað ekki síður það hvernig við eigum að taka á vændismálum. Menn þekkja það sem fylgst hafa með þeirri umræðu að það hafa bæði legið frammi þingmál um að fara hina svokölluðu sænsku leið og jafnframt hefur dómsmálaráðherra sett á laggirnar sérstaka nefnd til að skoða það hvaða aðgerðum við ættum helst að beita til þess að berjast gegn vændi. Það var gert á kjörtímabilinu og sú nefnd skilaði af sér. Eftir alla þessa umræðu kom frumvarpið með þeim tillögum sem þar er að finna og eins og ég gat um áðan er greinargerðin með málinu sérstaklega ítarleg. Þegar við skoðum til að mynda vændiskaflann í frumvarpinu eru dregnir fram í umræðuna allir helstu kostir og gallar þess að fara þá leið sem hér er valin. Jafnframt eru kostir og gallar sænsku leiðarinnar teknir til umfjöllunar. Allt er þetta vegið og metið og í frumvarpinu er lögð til ákveðin leið sem nefndin afgreiddi frá sér með þeim hætti sem nú liggur fyrir í nefndarálitinu. Ekki eru allir e.t.v. á eitt sáttir en í þeim tilgangi að koma málinu í heild sinni áfram tókst samkomulag í nefndinni sem ég tel að sé afskaplega mikilvægt.