133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

almenn hegningarlög.

20. mál
[17:01]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þingmanni að þetta er spurningin sem við stöndum frammi fyrir og ég veit að við erum ósammála um hana. En ég finn samt sem áður, eins og ég sagði í ræðu minni, á öllum mínum beinum að fylgi við umrædda aðferð er þó að aukast.

Ég er sannfærð um að við eigum eftir að koma til fylgis við þessa leið, (RG: Breytum þessu í næstu ríkisstjórn.) Breytum þessu í næstu ríkisstjórn, segir hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og ég tek náttúrlega undir það.

Auðvitað er ég sammála hv. þingmanni að það hefur ekki verið skautað fram hjá röksemdafærslunni. Við tókum umræðuna um þetta í fyrra og við tókum hana aftur núna í vetur. Við höfum farið í gegnum það aftur og aftur í nefndinni hver rökin eru með og hver rökin eru á móti. Því sem ég andmæli hins vegar hér er að ekki skuli vera sá dugur í hv. þingmönnum, meiri hluta allsherjarnefndar, að senda þessa tillögu hingað inn í Alþingi og leyfa þingheimi að greiða um hana atkvæði. Það er það sem við ættum að fá að gera hér.

Varðandi síðan hitt sem ég vil kalla skinhelgisákvæði meiri hlutans, þ.e. að bannað er að auglýsa blíðu sína. Það er bannað að auglýsa vændi. Við horfum á að það grasserar vændi í Reykjavík, hérna handan við Austurvöllinn. Við lesum um það í Krónikunni, góða úttekt á málinu, og það eina sem við höfum til málanna að leggja er: Það má ekki auglýsa. Mér finnst þetta ekki nógu gott. Við erum ekki nægilega ábyrg þegar við getum ekki tekið betur á málunum en þetta.