133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[17:19]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu. Með frumvarpinu er settur rammi um stjórnsýslu heilbrigðisþjónustunnar og ætti frumvarpið að bera nafn samkvæmt því. Að undirbúningi frumvarpsins hafa margir komið, og við afgreiðslu heilbrigðis- og trygginganefndar var málið sent út til fjölda félaga og hagsmunaaðila, og bárust nefndinni umsagnir og athugasemdir við flestar greinar frumvarpsins.

Nefndin fór vandlega yfir umsagnirnar og var góð samvinna allra í nefndinni við yfirferð og lagfæringar á frumvarpstextanum. Í frumvarpinu er vald ráðherra mikið en nær öllum ákvæðum um sjálfa þjónustuna er vísað í reglugerðir sem ráðherra setur. Þar til viðbótar er sjálf stefnumörkun heilbrigðisþjónustunnar einnig í höndum ráðherra, ekki einu sinni vísað til heilbrigðisáætlunar sem Alþingi samþykkir á hverjum tíma. Það fer því eftir pólitískum áherslum hvers ráðherra að ákveða hvort um miðstýringu eða valddreifingu verður að ræða í heilbrigðisþjónustunni. Það fer einnig eftir hverjum og einum heilbrigðisráðherra hvort rannsóknir og þróunarstarf verður eflt innan hverrar stofnunar og þar með lagður grunnur að nýbreytni, markvissari þjónustu og síðast en ekki síst góðri þjónustu við skjólstæðinga hverrar stofnunar eða hvort stuðlað sé að enn frekari einkavæðingu í allri heilbrigðisþjónustunni en með frumvarpinu er greinilega orðið við kröfum ýmissa aðila um einkarekstur á heilbrigðissviði eða hvort stefna eigi að stærri þjónustueiningum og stofnunum til að ná fram hagræðingu í rekstri.

Margir jákvæðir þættir eru í frumvarpinu og þá vil ég helst nefna að kveðið er á um að heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaður, að heimild á vistun yngri en 67 ára á hjúkrunarheimilum verði leyfð, þetta á þá einkum við um unga alzheimersjúklinga, og skráningu óvæntra atvika er komið á. Þrátt fyrir það teljum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að við svo veigamiklar skipulagsbreytingar á viðkvæmri þjónustu verði Alþingi að gefa málinu tíma, bæði í vinnslu og ekki síður í umræðu hér í sal og möguleika á að vinna að frumvarpinu milli 2. og 3. umr.

Til þess gefst ekki tími á síðasta degi stutts vorþings og vísum við því allri ábyrgð á afgreiðslu málsins á hæstv. ríkisstjórn. Hröð afgreiðsla heildarlaga um heilbrigðisþjónustu og tveggja frumvarpa sem þeim fylgja finnst mér hneisa fyrir Alþingi, og virðingarleysi við viðkvæma þjónustu, þjónustu sem að okkar mati á að styrkja með sérlögum enda er hún undanþegin samkeppnislögum. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum tilbúin til að axla ábyrgð í þessum málaflokki. Við hefðum samfélagslega ábyrgð, þverfaglegt starf og þverfaglegt starf í þágu sjúklinga að leiðarljósi. (Gripið fram í.)

Fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hef ég lagt fram fjórar breytingartillögur til að styrkja faglega stjórnun og lýðræðislega stjórn (Forseti hringir.) Landspítalans.