133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[17:22]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum að setja rammalöggjöf um heilbrigðisþjónustuna. Búið er að leggja mikla vinnu í þetta frumvarp eins og komið hefur fram í umræðunni. Það er ýmis góð nýbreytni í því eins og t.d. að ungir hjúkrunarsjúklingar eigi sama aðgang að hjúkrunarrýmum og aðrir og ýmislegt fleira. Við samfylkingarmenn í heilbrigðis- og trygginganefndar höfum tekið þátt í vinnslu þessa máls og skrifuðum undir málið með fyrirvara. Við munum styðja öll ákvæði frumvarpsins en breytingartillögur frá Þuríði Backman mætti auðvitað skoða nánar. Ekki hefur gefist tími til þess og ekki var rætt í nefndinni neitt frekar um þau efni. Við munum sitja hjá við þau atriði en ég tel fulla ástæðu til að við skoðum þessi lög þegar komin verður einhver reynsla á þau og þá förum við yfir fleiri þætti sem snúa að málinu. Reynslan verður að leiða í ljós hvar þarf að taka frekar á þessum lögum.