133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[17:33]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að til styrktar forstjóra Landspítala – háskólasjúkrahúss skipi ráðherra níu manna ráðgjafarnefnd en ég tel eins og margir aðrir að það sé ekki nægilegt að hafa ráðgjafarnefnd við Landspítalann, það þurfi styrkari stjórn. Þessi tillaga fjallar um að ráðherra skipi níu manna stjórn Landspítalans og jafnmarga til vara til fjögurra ára. Þetta er að fyrirmynd Tryggingastofnunar ríkisins sem er stofnun sem ég tel að eins og Landspítalinn eigi að hafa sérstöðu og þurfi stjórn og þá með fulltrúum frá Alþingi, starfsmönnum og neytendum þjónustunnar, þ.e. fulltrúa frá sjúklingum.