133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

almenn hegningarlög.

20. mál
[18:08]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Með frumvarpi því sem við nú greiðum atkvæði um eru lagðar til mjög umtalsverðar og markverðar breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Skilgreining hugtaksins „nauðgun“ er rýmkuð og nær til hvers konar annars konar kynferðisnauðungar. Minni áhersla er lögð á ofbeldisþátt nauðgunar en meiri á sjálfsákvörðunarrétt, frelsi einstaklingsins og friðhelgi og í öndvegi er kynfrelsið sett. Allt eru þetta réttmætar og þýðingarmiklar breytingar sem víðtæk sátt ríkir um og horfir til mikilla réttarbóta fyrir þolendur kynferðisbrota.

Til viðbótar leggur frumvarpið til tvær breytingar, annars vegar um fyrningarfrest kynferðisbrota gegn börnum og er lögð til lenging frestsins og hins vegar er lagt til að fella niður refsinæmi þess að stunda vændi sér til framfærslu.

Um fyrningarfrest kynferðisbrota gegn börnum hefur verið deilt og tekist um á hvort afnema ætti fyrningarfrest í öllum kynferðisbrotum gegn börnum eða engum. Í meðförum allsherjarnefndar að þessu sinni hefur náðst sú málamiðlun, sú sátt sem ég lagði til með breytingartillögu á síðasta þingi, að afnema fyrningarfrest í alvarlegustu kynferðisbrotunum gagnvart börnum og lagt er nú til að þau fyrnist ekki.

Eins og segir í athugasemdum með frumvarpinu er allur munur á nauðgun og þukli utan klæða og afleiðingum þessarar tveggja brota fyrir börn sem fyrir þeim verða. Ég fagna mjög þessari mikilsverðu breytingu sem hv. þingmenn allsherjarnefndar hafa náð sátt um. Þetta er stór dagur fyrir þolendur kynferðisbrota og þetta er stór dagur fyrir alla þá sem hafa látið sig þessi mál miklu varða.

Jafnframt er löngu tímabært að afnema refsinæmi þess að stunda vændi sér til framfærslu og það er víðtæk sátt jafnframt um þá breytingu sem hér er lögð til. Ég fer hins vegar ekki dult með það að ég ásamt mörgum fleirum hef lengi verið einarður stuðningsmaður þess að færa refsiábyrgðina frá seljandanum, þolandanum, sem oftast er kona og yfir á kaupanda vændis með öllum þeim rökum og ástæðum sem fyrir þeirri leið eru færðar í athugasemdum með frumvarpinu. Ég styð þá breytingu, herra forseti, á vændisákvæðinu sem spor í rétta átt.