133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

svar við fyrirspurn – frumvarp um vátryggingarsamninga.

[18:19]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil gera þingheimi grein fyrir upplýsingum sem mér hafa borist frá hæstv. fjármálaráðherra sem svar við fyrirspurn minni um þróun barnabóta á samstarfstíma Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá árinu 1995, en sem kunnugt er lofuðu þessir flokkar því að bæta verulega stöðu barnafólks og bæta í barnabæturnar. Þetta voru einhver sverustu kosningaloforðin sem Framsóknarflokkurinn gaf árið 1995, árið 1999 og fyrir kosningarnar 2003.

Hver er niðurstaðan? Niðurstaðan er sú að ef miðað er við fast verðlag á árinu 2005, stöðu krónunnar þá, námu barnabætur rúmum 6,6 milljörðum 1995, svipað 1996, orðið lægra 1997, 1998 enn lægra, 1999 enn lægra, 2000 enn lægra, orðið rúmum tveimur milljörðum lægra, 2002 lægra, 2003 lægra, 2004 lægra og 2005 lægra. Það er síðan á árinu 2006 og 2007 sem farið er að bæta í í samræmi við gömlu trikkin að bæta í í tengslum við kosningar sem minnir okkur á að báðir þessir flokkar og ríkisstjórnin í heild sinni er farin að ávísa inn í framtíðina. Þar eru kosningaloforðin.

Hæstv. forseti. Ég vildi nota þetta tækifæri til að biðja Framsóknarflokkinn afsökunar á einu. Ég hafði heitið formanni flokksins því að taka upp umræðu um einkavinavæðingu Framsóknarflokksins í tengslum við einkavæðinguna. Því miður getur ekki orðið af þessu, við höfum samið um þinglokin í dag en ég heiti því að taka málið upp á komandi vikum í kosningabaráttunni. (Utanrrh.: Ég er stolt af þeirri umræðu.)