133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

svar við fyrirspurn – frumvarp um vátryggingarsamninga.

[18:21]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er svona hálfaumur yfir þessu svari sem hv. þingmaður var að vitna til. Þó að svarið sé rétt svo langt sem það nær þá nær það ekki nema til ársins 2005. Miðað við þær tölur sem samþykktar eru í fjárlögunum fyrir árið 2007 eru 8,5 milljarðar kr. í barnabætur og það er að raungildi það hæsta sem verið hefur síðan 1991 og sem hlutfall af landsframleiðslu er það það hæsta sem það hefur verið síðustu tíu árin. Það er búið að hækka ótekjutengdar barnabætur um 50% á tveimur árum og hækka viðmiðunarmörk á tekjutengdum barnabótum um 50% á tveimur árum.

Af því að ég verð eiginlega að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu hér svo að ég gæti komið þessum frekari upplýsingum á framfæri við þingheim, og ég veit að hann er áhugamaður um hvernig kjör barnafólks eru að þróast, þá langar mig til þess að upplýsa einnig um það að þær breytingar sem hafa verið gerðar á skattkerfinu á fyrstu þremur mánuðum ársins, því sem liðið er af þeim, leiða til þess að kaupmáttaraukning barnafólks, vegið meðaltal, hækkar um 8,6%. Það er kaupmáttur ráðstöfunartekna þegar tekið hefur verið tillit til skatta og verðlagsbreytinga.

Fyrir þá hins vegar sem telja að haglýsingar Fitch matsfyrirtækisins og þeirra mat á stöðunni hér sé það besta sem hægt er að fá eru þetta ekki vondar fréttir því að það er auðvitað það sem við höfum verið að gera núna á síðustu mánuðum til þess að bæta kjör þessa hóps (Forseti hringir.) sem þessir aðilar hafa verið að gera athugasemdir við (Forseti hringir.) og sumir hv. þingmenn hafa tekið undir að undanförnu.