133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

svar við fyrirspurn – frumvarp um vátryggingarsamninga.

[18:26]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla að ræða hér um störf þingsins, allt annað mál en menn hafa rætt hér en það er að mér hefur borist til eyrna að frumvarpi til laga um vátryggingarsamninga verði frestað og ég vil benda hv. þingheimi á hvaða afleiðingar það muni hafa.

Tilgangur þessa frumvarps var að eyða vafa á túlkun sem hefur risið um ákvæði 82. gr. laganna um vátryggingarsamninga sem komu til framkvæmda 1. janúar 2006. Tvær opinberar stofnanir, Persónuvernd og Fjármálaeftirlitið höfðu hvor sína túlkun á lögunum.

Mér sem formanni efnahags- og viðskiptanefndar barst þetta til eyrna og ég leitaði eftir því að ráðuneytið, ásamt þessum tveimur stofnunum, kæmist að niðurstöðu þannig að ekki ríkti sú réttaróvissa í landinu sem er vegna túlkunar þessara tveggja stofnana. Hér var lagt fram frumvarp á þinginu og það var unnið mjög vel í nefndinni. Nefndin fékk þrjá aðila, ráðuneytið og þessar tvær stofnanir til að fara í gegnum málið ítarlega og niðurstaðan er það frumvarp og þær breytingar sem við höfum hér til vinnslu í þinginu.

Ef þetta verður ekki samþykkt núna ríkir áfram réttaróvissa í landinu og áfram gilda núgildandi lög sem ég held að allir séu sammála um að séu verri en það sem hér er lagt til. Ég skora því á hv. þingmenn að taka sér tak og samþykkja þetta frumvarp og þær breytingar sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur gert á því.