133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

svar við fyrirspurn – frumvarp um vátryggingarsamninga.

[18:32]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þær upplýsingar sem hér koma fram í svari hæstv. fjármálaráðherra eru gríðarlega mikilvægar. Þær staðfesta það sem við í Samfylkingunni og reyndar stjórnarandstöðunni allri höfum haldið fram, að í ríkisstjórnartíð Framsóknarflokksins er búið að kroppa samtals 10 milljarða af barnabótum, það er búið að taka 10 milljarða kr. frá barnafjölskyldum í landinu og við vitum öll hvert þær hafa verið færðar. Þær hafa verið færðar í skattalækkanir 10 prósentanna sem hafa hæstar tekjur á Íslandi. Þetta er það sem skiptir máli við þessar upplýsingar.

Framsóknarflokkurinn, sem heldur því fram að hann sé sérstaklega barnavinsamlegur, hefur tekið þátt í því að taka með þessum hætti 10 þús. millj. íslenskra króna frá barnafjölskyldum. Er það nema von, herra forseti, að það sjái undir iljar framsóknarmanna burt úr salnum samstundis og þessi umræða kemur upp. Þegar ég horfi hér yfir þéttskipaðan þingsal sé ég að það vantar bara fulltrúa eins flokks, Framsóknarflokksins. Hann flýr af hólmi þegar þessar upplýsingar koma fram. Hvar eru nú talsmenn Framsóknarflokksins úr fjárlaganefndinni þegar við ræðum þessa tölu, þá staðreynd að búið sé að taka 10 milljarða úr barnabótum frá 1995? Hvar eru þeir núna? Þeir eru flúnir vegna þess að þeir þora ekki að horfast í augu við sannleikann.

Svo kemur hæstv. fjármálaráðherra og gumar af því að búið sé að ákveða að hækka fyrir næsta ár, á kosningaári, en hverjir ráku hæstv. fjármálaráðherra, nánast klipu hann með töngum, til þess að gera þá breytingu sem verður á næsta ári? Það var verkalýðshreyfingin, það var partur af samningum milli ríkisstjórnarinnar og verkalýðshreyfingarinnar þannig að það er engin ástæða fyrir hæstv. ráðherra að hrósa sér af þessu.