133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

svar við fyrirspurn – frumvarp um vátryggingarsamninga.

[18:36]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Málflutningur hæstv. fjármálaráðherra í þessum umræðum er honum ekki til mikils sóma. Ætli það sé ekki þannig að greiningardeildir (Gripið fram í.) erlendra banka og sérfræðiaðilar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, OECD og fleiri hafi í skýrslum sínum einmitt gagnrýnt ríkisstjórnina harkalega fyrir að gera — hvað? (Gripið fram í.) Að lækka skatta á hátekjufólki í miðri þenslunni. (Gripið fram í.) Ætli það sé ekki í þessum skýrslum, hæstv. fjármálaráðherra? (Gripið fram í.)

Það sem við erum að ræða hér í formi barnabóta — (Forseti hringir.)

(Forseti (BÁ): Forseti biður þingmenn að gefa ræðumanni tækifæri til að ljúka máli sínu.)

Það sem við erum að ræða hér í formi barnabóta eru smáaurar í samanburði við þær stóru fjárhæðir sem ríkisstjórnin hefur mitt í þenslunni sett í umferð með því að lækka skatta á hátekjufólki og með því að lækka skatta á gróðafyrirtækjum. (Gripið fram í.) Og haltu þér nú rólegum augnablik, hv. þingmaður. Við vonuðum að einu sinni á þessu kjörtímabili yrði rætt um störf þingsins án þess að þú tækir þátt í því.

Varðandi barnabæturnar er það einfaldlega þannig að ríkisstjórnin á langt í land með að skila þeim 10 milljörðum sem hún hefur haft af barnafjölskyldum í landinu á þessum langa tíma. Það sem verst er er það að þær fjölskyldur sem urðu af bótunum á þessum langa tíma fá þær aldrei aftur. Þær eru búnar að ala upp börn sín við verri skilyrði en ella hefði orðið. Má ég minna á hvað tekjuskerðingarmörkin liggja neðarlega og að nú eru eingöngu greiddar ótekjutengdar barnabætur upp að sjö ára aldri?

Að síðustu vil ég minna á eitt, hið stórfellda kosningaloforð Framsóknarflokksins um barnakortin. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Hvar eru barnakortin?) Hvar eru barnakortin, hv. yfirgjammari? Var það orðið að fjölskyldukortum hjá Birni Inga Hrafnssyni? Nei, ætli það sé ekki þannig að Framsókn ætti að (Gripið fram í.) líta í eigin barm og skammast sín. (GÓJ: Hvenær á að hækka skattana?)