133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[18:47]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um frumvarp um losun gróðurhúsalofttegunda, þ.e. um að úthluta kvótum til stóriðjufyrirtækja. Við höfum borið fram við þetta frumvarp þrjár breytingartillögur, í raun fjórar, og þær gera ráð fyrir því að laga frumvarpið með þeim hætti að gjald verði tekið fyrir losunarheimildirnar, sem þar með teljast vera takmörkuð verðmæti í þjóðareigu, að ekki verði heimilt að fara yfir þær 1,6 millj. tonna sem til úthlutunar eru á hverju ári þannig að vígstaða Íslendinga og samningsstaða sé betri þegar kemur að næsta Kyoto-tímabili eftir það sem við erum núna að ganga inn í og að við stöndum með sóma og reisn við skuldbindingar okkar í baráttunni gegn loftslagsvánni. Í þriðja lagi að gæta þess að í svokölluðu sveigjanleikaákvæði verði gætt umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða.

Ef þessar tillögur verða samþykktar er hægt að kalla þetta frumvarp töluvert skref, jákvætt, í þann nýja heim sem blasir við í umhverfismálum og atvinnuháttum og í raun og veru inn í nýtt hagkerfi sem mótast af þeirri virðingu fyrir umhverfi sem nú er ekki lengur pólitískur kostur, þannig að ég vitni til ummæla Als Gores á Óskarsverðlaunahátíðinni, heldur siðferðileg skylda.