133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[19:09]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér er nú ekki neitt ósamræmi á ferðinni eins og reynt er að gefa í skyn. Við erum að breyta vistunarmatinu gagnvart öldruðum. Í dag fara yfir 40 þjónustuhópar aldraðra með vistunarmatið á hverju svæði fyrir sig og við erum að breyta því vistunarmati þannig að hóparnir verða miklu færri. Sex til níu hópar munu framkvæma þetta vistunarmat. Þetta er gert meðal annars vegna ábendinga Ríkisendurskoðunar um að færa vistunarmatið í faglegra horf þannig að það verði gert á svipaðan hátt hjá hverjum hópi. Því stórfækkum við hópunum og gerum þá faglegri.

Þjónustuhóparnir munu samt sem áður halda áfram að vinna í öðrum málum sem þeir sinna í dag. En vistunarmatið mun fara frá þeim. Það er sem sagt þetta vistunarmat sem er verið að tala um í frumvarpinu og hv. þingmaður er hér að vísa í kostnaðarumsögnina með, þ.e. vistunarmatið sem fer fram á hverjum stað. Það er verið að meta þá öldruðu áður en þeir fara inn á stofnun, þ.e. hvort þeir þurfi að fara á stofnun eða ekki. Um það vistunarmat er verið að tala. Þetta vistunarmat hefur verið greitt af sveitarfélögunum eða þessir þjónustuhópar og hér er um að ræða milljónatugi sem þetta almenna vistunarmat kostar. Sá kostnaður er sem sagt að færast af sveitarfélögunum yfir á ríkið og er það væntanlega til mikils léttis fyrir sveitarfélögin.

Það sem hv. þingmaður er síðan að telja hér upp varðandi nýlegt svar út af Framkvæmdasjóði aldraðra er allt annað mál. Það eru tæpar 4 millj. kr. sem eru miðlægt utanumhald utan um vistunarmatið. Það er ekki vistunarmatið sjálft heldur utanumhald. Á sínum tíma var það hjá Reykjavíkurborg. Síðan var þetta miðlæga utanumhald greitt af framkvæmdasjóðnum sjálfum. Núna verður það fært yfir til landlæknisembættisins. Það er talið eðlilegra að vista það þar af því að litið er á þetta vistunarmat sem biðlista, þ.e. eins og hvern annan biðlista.

Þarna er því um tvö eðlislega ólík mál þó þau séu ekki óskyld að ræða. Það er vistunarmatið sjálft, þ.e. þegar það er gert á hverjum stað fyrir sig gagnvart hverjum einstaklingi. Þar eru háu upphæðirnar, milljónatugir. Síðan er það utanumhaldið miðlæga. Það kostar tæpar 4 millj. eins fram kemur í svarinu sem hv. þingmaður var að vitna í.

Varðandi spurningu hv. þm. Marðar Árnasonar eftir að hann vitnaði í það að á forsíðu Fréttablaðsins komi fram að heilbrigðisráðherra vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað þá á ég von á því að það verði leiðrétt í Fréttablaðinu á morgun. Ég fór í viðtal við Fréttablaðið. Ég var ekki beðin um að tjá mig um málið. Hér er misskilningur á ferðinni.

Varðandi framkvæmdasjóðinn þá er það þannig að greiðslur úr honum fara má segja í fimm mismunandi verkefni. Það er í fyrsta lagi bygging þjónustumiðstöðva, dagvista og stofnana fyrir aldraða. Í það fara meginupphæðirnar. Sjóðurinn veltir í kringum milljarði á þessu ári. Í öðru lagi er það að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu fyrir aldraðra. Í þriðja lagi er um að ræða viðhald húsnæðis, dagvistar, dvalar- og hjúkrunarheimila. Í fjórða lagi er það til reksturs stofnanaþjónustu fyrir aldraða í sérstökum tilvikum, samanber 14. gr. laga um málefni aldraðra og í fimmta lagi annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu. Það hefur stundum verið kallað þróunarverkefni og önnur slík verkefni. Þeim lið er hv. þingmaður að velta fyrir sér.

Samkomulag hefur verið gert við Landssamband eldri borgara og fleiri aðila í Ásmundarnefndinni sem var að störfum í sumar og það verður hætt að taka fjármagn úr Framkvæmdasjóði aldraðra til reksturs. Það er breytingin. Hinir liðirnir verða áfram inni í sjóðnum. Það er rekstrarliðurinn sem breytist og það verður gert í tveimur áföngum. Frá og með árinu 2008 hækkar framlagið sem getur farið til annarra verkefna sjóðsins um 230 millj. kr. Það eru miklar rangfærslur í þessari frétt sem hv. þingmaður vitnaði til og ég á von á því að það verði leiðrétt á morgun.

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að menn hafa túlkað þennan 5. lið varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra misjafnlega. Það er alveg ljóst. (Gripið fram í.) Þeir sem um hann hafa rætt. (Gripið fram í.) Þegar er hafin vinna í ráðuneytinu við að skilgreina þennan lið betur af því að ég tel eðlilegt að reglurnar um hann séu þess eðlis að menn skilji þennan lið á sama hátt.