133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[19:17]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég býst við að hv. þingmaður sé að velta fyrir sér framlagi til upplýsingaþjónustu um málefni aldraðra. Ég býst við því, af því að komið hefur bréf frá Landssambandi eldri borgara í ráðuneytið þar sem Landssamband eldri borgara hafnar því að taka það verkefni að sér, en ég hafði vonast til að landssambandið mundi gera það. Landssambandið hafnar því og mótmælir því að það verkefni, sem er þróunarverkefni, eigi að verða greitt úr framkvæmdasjóðnum eins og er áætlað, og fullyrðir í því bréfi að það mál hafi ekki verið tekið upp í samráðsnefndinni. Það er rétt sem fram kemur hér að samráðsnefndin er stjórn sjóðsins og leggur til í hvað framlögin eigi að fara.

Jón Helgason er formaður samráðsnefndar og ég hef fundað með honum ásamt samráðsnefndinni og það er alveg ljóst að það mál var til umfjöllunar í samráðsnefndinni. Þó að Landssamband eldri borgara fullyrði að svo hafi ekki verið þá fullyrðir formaðurinn að svo hafi verið og aðrir sem hafa verið á fundum nefndarinnar og ég hef rætt við. Það er því ekki rétt að það verkefni hafi ekki fengið umfjöllun.

Ég hef hins vegar velt því fyrir mér, virðulegur forseti, vegna þessarar umræðu, hvort ég eigi að hætta við þetta verkefni, bara sleppa þessu verkefni (ÖS: Við tökum nú af þér ómakið.) og láta ekki framkvæma það. Þetta er mjög gott verkefni og hægt er að koma því fyrir annars staðar, það er hægt að koma því fyrir úti á landi. Þetta er þjónusta sem mundi henta þar til dæmis. (Forseti hringir.) En vegna þessarar umræðu velti ég því fyrir mér hvort maður eigi ekki bara að sleppa því að fara í verkefnið.