133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[19:22]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Samráðsnefndin, sem er stjórn sjóðsins, hefur fjallað um þetta verkefni þó að Landssamband eldri borgara telji að svo hafi ekki verið. Það fullyrðir formaður sjóðsins, Jón Helgason, ásamt öðrum sem ég hef rætt við sem hafa með sjóðinn að gera. Síðast þegar ég vissi af ætlaði formaðurinn að koma því skriflega á framfæri að sjóðurinn hefði fjallað um þetta mál í tilefni af staðhæfingum Landssambands eldri borgara.

Ég tel að þetta verkefni sé mjög gott og hefði gjarnan viljað koma því af stað. Það felst í því að menn geta hringt í ókeypis númer og fengið upplýsingar um þá þjónustu sem eldri borgurum stendur til boða. Ekki bara það sem Tryggingastofnun hefur með að gera, alls ekki, þar eru menn að fá upplýsingar um bætur sem þeir geta notið. Þarna yrði um miklu víðtækari upplýsingagjöf að ræða, líka upplýsingar um það sem Félagsþjónusta sveitarfélaga getur boðið upp á og ýmis önnur þjónusta. Þessu verkefni er hægt að koma fyrir þess vegna úti á landi, mér finnst þetta alveg kjörið verkefni til að hafa úti á landi, fyrst Landssamband eldri borgara hafnaði því að taka það að sér.

En vegna þessarar umræðu, sem ég tel vera út úr öllu korti, þá er ég virkilega að velta því fyrir mér að sleppa verkefninu. Ég tók það upp við samráðsnefndina sem taldi að ég ætti ekki að sleppa því að fara í verkefnið, en ég er enn að velta því fyrir mér hvort ég eigi að fara í verkefnið eða ekki.