133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[19:27]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Í svarinu er ekkert getið um það, eins og var þó á einhverju af fyrstu árunum, að sjóðurinn hefði veitt fé til þess að auglýsa styrkúthlutun úr sjálfum sér. Ég grandskoða að vísu ekki fjölmiðlana en ég hef ekki séð slíkar auglýsingar í blöðunum um að Framkvæmdasjóður aldraðra sé núna að úthluta styrkjum til kvikmyndatöku, söngstarfs og hins og þessa. Þó kann að vera og hefði kannski verið eðlilegra fyrir ráðherrann að svara því með Óperukórinn að hann hafi verið á öldrunarstofnun, þar sem 70 aldraðir eru nú á Landspítalanum vegna þess að þeir komast ekkert annað þó að þeir séu í rauninni ekki sjúklingar heldur þurfi að komast í betra húsnæði.

Með hinar 4 milljónir, sem enn eru eftir í sjóðnum þegar hæstv. heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, hefur látið greipar sópa um hann á þeim þremur mánuðum sem liðnir eru, ætla ég bara að vona að farið verði vel með. Það er töluverður hópur af skattborgurum sem hver hefur reitt fram 6.314 kr. og myndað þessar 4 milljónir. Ég vona að það verði hugsað til þess hóps í heilbrigðisráðuneytinu þegar því fé verður úthlutað. Ég vona að því verði a.m.k. ekki úthlutað í kosningaáróður til Framsóknarflokksins eins og raunin hefur verið um fé úr þeim sjóði sem nýleg dæmi, því miður, sanna áþreifanlega.