133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[19:28]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er svo fráleitur málflutningur að þrátt fyrir að þingmenn séu orðnir þreyttir hér á síðasta degi þingsins þá leyfi ég mér að koma upp og svara honum.

Að halda því fram að verið sé að nota féð í einhvern kosningaáróður er algjörlega fráleitt. Ég býst við að hv. þingmaður sé að vitna í upplýsingarit sem var gefið út á síðasta sumri um heildarstefnumótun í málefnum aldraðra sem var búið að kalla eftir. Að kalla það eitthvert kosningarit er algjörlega fráleitt og ég vísa því á bug.

Varðandi það sem á að greiða úr sjóðnum á þessu ári og kemur fram í því svari sem ég gat um áðan, sem eru um 15 millj. kr. af þessum lið, en sjóðurinn veltir um milljarði á þessu ári, þá á sú upphæð sem spurt er um að fara í upplýsinga- og ráðgjafarþjónustu fyrir aldraða sem við höfum nú þegar rætt um — og ég er að velta fyrir mér að fara jafnvel ekki í vegna þess að umræðan er á þeim nótum. (Gripið fram í.) Alls ekki. Þetta á líka að fara í gagnagrunn á öldrunarsviði, þ.e. heildarlýsingar um þjónustu fyrir aldraða um allt land hjá landlæknisembættinu. Þetta á að fara í starfsnefnd um framtíðarstaðsetningu öldrunarmála, m.a. á könnun á flutningi málaflokksins til sveitarfélaga. Þessi framangreindu verkefni kosta 10,6 millj. kr. Þá standa eftir 4,4 millj. kr. sem verður ráðstafað í önnur verkefni sem stuðla að uppbyggingu í öldrunarþjónustu eins og við höfum gert áður. (MÁ: … Framsóknarflokksins.) Það er því alveg á hreinu, virðulegur forseti, að hér er ekkert skrýtið á ferðinni og ég frábið mér þann málflutning sem hér hefur verið hafður í frammi.