133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[20:14]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er komin tillaga til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun með þeim viðbótum sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur mælt fyrir fyrir hönd samgöngunefndar.

Það verður að segjast eins og er að fátt hefur verið daprara á síðustu fjórum árum en framkvæmd núverandi ríkisstjórnar í vega- og samgöngumálum. Nokkuð metnaðarfull vegáætlun var samþykkt hér fyrir fjórum árum í aðdraganda kosninga sem strax um sumarið var skorin niður um tæpa 2 milljarða kr., strax á fyrsta ári. Síðan hefur þessi samgönguáætlun verið skorin niður á hverju ári þannig að heildarniðurskurður á áætluninni á þessu þriggja og hálfs árs tímabili nemur einhvers staðar á milli 6 og 7 milljörðum kr. óverðbætt. Til viðbótar þessu hafa svo verið skornir niður á þessu ári liðlega 2 milljarðar kr. sem áttu að fara til sértækra vegabóta fyrir söluandvirði Símans. Við sjáum á þessu hverjar efndirnar hafa verið í samgöngumálum, enda er það svo að árið 2006 eru framkvæmdir í vegamálum þær minnstu, bæði hvað varðar fjármagn í heild sinni og einnig sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, um árabil. Og þótt nú komi hér nokkuð metnaðarfull samgönguáætlun til næstu fjögurra ára skulum við líta á efndirnar hjá þeirri ríkisstjórn sem nú er búin að sitja í tólf ár. Hún hafði nákvæmlega sama háttinn á á fyrra kjörtímabili sínu við að skera niður. Trúverðugleiki núverandi ríkisstjórnar í vega- og samgöngumálum er því enginn að mínu mati.

Síðastliðið sumar þegar ríkisstjórninni þótti þenslan keyra um þverbak vegna stóriðjuframkvæmdanna var gripið til þess að fresta framkvæmdum þar sem þenslan var minnst, á Vestfjörðum og á Norðausturlandi. Þetta var nú nánd þessarar ríkisstjórnar við raunveruleikann. Trúir því nokkur að þessi ríkisstjórn hafi breyst eða breytist eitthvað þó að hún setji hér fram einhverja nýja samgönguáætlun? Nei, því trúir enginn, enda er ekki hægt að ætlast til þess. Þetta er eins gott að hafa í huga þegar við fjöllum um þá þingsályktun sem er til umfjöllunar um áætlaðar vegaframkvæmdir á næstu fjórum árum. Örfá atriði samt varðandi þessa áætlun.

Lagt er til að í henni sé sérstök fjármögnun, svona óskilgreind fjármögnun, mig minnir að til vegamála séu einhvers staðar 10 milljarðar kr. sem eigi bara að taka einhvers staðar, er kallað sérstök fjármögnun o.s.frv., sem er fullkomlega óábyrgt því að við vitum að allar framkvæmdir kosta fjármagn og ríkissjóður er ábyrgur fyrir því að framkvæmdir verði gerðar og útvegi fjármagn. Það má vel vera að ríkissjóður þurfi að taka lán í einhvern takmarkaðan tíma en ríkissjóður á að bera ábyrgð á þessum framkvæmdum en ekki að láta það vera eins og óútfylltan tékka hvernig það skuli fjármagnað. Þetta er einn af stóru veikleikunum fyrir utan það að ýjað er að einkavæðingu á vegum, einkavæðingu á framkvæmdum, ýjað að því að það leysi málin að láta einhver fyrirtæki, einhverja einstaklinga fá vegarspotta til þess að byggja upp eða leggja eða innheimta gjöld af. Þetta er kolröng stefna og til skammar. Okkur ber að eiga þjóðvegina.

Frú forseti. Það er alveg ljóst að gera þarf stórátak í vegamálum. Það er efst á lista hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að strax að loknum kosningum, ef tekst að skipta um ríkisstjórn, sem við efumst ekkert um, verður þessi samgönguáætlun tekin upp. Hún verður tekin upp, hún verður endurskoðuð, það verður gert átak í samgöngumálum, í vegamálum, og staðið við þau. Ég horfi þá m.a. til Vestfjarða og Norðausturlands, til safn- og tengivega sem hafa fullkomlega verið vanræktir á undanförnum árum. Vegirnir inn til dala og út til stranda sem eru í rauninni lífæðar þessara byggða, t.d. vegurinn norður Strandir. Svona má áfram nefna vegi sem hafa fullkomlega verið vanræktir og þurfti ekki að skera niður fjármagn til á þessu ári, þessir vegir eru tilbúnir til þess að ráðist verði í þá. Aumingjaskapurinn í kringum vegamál og vegagerð sem verið hefur á undanförnum árum og heldur áfram á þessu ári er að mínu viti ríkisstjórninni til skammar. Eitt brýnasta verkefnið fyrir þjóðina er að gera stórátak í vegamálum og það verður aðeins gert með því að skipta um ríkisstjórn og endurskoða þessa vegáætlun af einhverjum myndarbrag. (Gripið fram í.)

(Forseti (SAÞ): Forseti biður hv. þingmenn að hafa þögn í salnum.)