133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[20:20]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Frú forseti. Ég hef mjög takmarkaðan tíma til þess að fara yfir þetta stóra mál en mér finnst hins vegar óhjákvæmilegt að kveðja mér hljóðs til þess fyrst og fremst að ræða aðeins um umferðar- og samgöngumál í höfuðborginni og á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst vegna þess að þegar þetta mál var lagt fram fyrr í vetur átti ég orðastað við hæstv. samgönguráðherra um þau vandamál sem blasa við í samgöngumálum á þessu svæði. Ég taldi og fullyrti að þær fjárveitingar sem rynnu til úrbóta í samgöngu- og vegamálum á því svæði væru allsendis ófullnægjandi og í engu samræmi við það sem borgarstjórn Reykjavíkur hafði t.d. lagt til. Hæstv. samgönguráðherra var bara nokkuð kotroskinn þegar hann svaraði þessum fullyrðingum mínum og ekki var hægt að skilja annað en að tillögurnar sem hann setti fram í þessari samgönguáætlun væru í fullu samræmi við óskir og þarfir borgarstjórnar Reykjavíkur og annarra á höfuðborgarsvæðinu.

Nú hefur komið í ljós að þetta er mikill misskilningur ef ekki beinlínis blekking af hálfu hæstv. ráðherra, og það er synd að hann skuli ekki vera hér viðlátinn til þess að hlusta á þessa gagnrýni. Ég fullyrði að þetta sé allt á hinum versta vegi með vísan til þess að hér kemur fram að samgöngunefnd kallaði til sín eða fékk á sinn fund bæjarstjóra og fulltrúa allra sveitarfélaganna hér á svæðinu og þar hefur ástandinu greinilega verið lýst þannig að hæstv. samgönguráðherra og ríkisstjórnin hafa séð sig knúin til þess að leggja fram örlítið meira fé, eða eitthvað í kringum einn milljarð í viðbót til þess kannski að bjarga brýnustu þörfunum. En samgöngunefndin sem er að leggja fram sitt álit núna hefur ekki meiri metnað til þess að takast á við þennan vanda en það sem segir á bls. 3 í nefndarálitinu: „Nefndin telur að stefna beri að því að umferðarástand á svæðinu versni ekki á tímabilinu …“ Allt og sumt sem vakir fyrir nefndinni er svona neyðarbjörgun, að sjá til þess að ástandið versni ekki. Með öðrum orðum, það er ekki gert ráð fyrir að lagt sé í mikil átök eða miklar framkvæmdir heldur eigi aðeins að reyna að viðhalda ástandinu þannig að það versni ekki mjög mikið. Þetta kalla ég ekki metnaðarfulla framtíðarstefnu í ljósi þess að ástandið sem blasir við öllum, hvort sem þeir búa á höfuðborgarsvæðinu ekki, er algjört öngþveiti í samgöngumálum.

Nefnt hefur verið hér vandamálið að komast út úr bænum, bæði vestur og suður. Við höfum talað um Sundabrautina, Miklubrautina og Kringlumýrarbrautina. Við höfum talað um Hlíðarfótinn og um greiðari samgöngur vestur í bæ, í Tryggvagötunni, þar þarf að ráðast í miklar framkvæmdir. Öll þessi verkefni eru meira og minna í fullkominni upplausn. Ég held að síðasti naglinn í þessari líkkistu hæstv. ráðherra sé kannski sú yfirlýsing sem fylgir með nefndarálitinu þar sem það er beinlínis viðurkennt af hálfu ríkisstjórnarinnar og ráðherranna að gera þurfi sérstakt átak og greina það vandamál og þá stöðu sem nú er uppi á höfuðborgarsvæðinu. Hæstv. samgönguráðherra og hæstv. fjármálaráðherra gefa sem sagt frá sér yfirlýsingu um það að á næstunni þurfi að taka samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu til sérstakrar athugunar. Þeir eru svo örlátir að þeir ætla að reyna að tryggja fjármagn eða eins og segir í yfirlýsingunni að þeir muni leitast við að tryggja fjármagn, og ef og þegar eitthvert fjármagn á að koma þá er það ekki fyrr en 2009. Þetta er allt og sumt sem þeir hafa í hyggju að gera í þessum mikla vanda og ég fullyrði að þessi yfirlýsing er vottorð um að þessi mál eru í fullkomnum ólestri.

Ég held líka að það verði erfitt fyrir ágæta borgarstjórn í Reykjavík og borgarfulltrúa að standa við þær yfirlýsingar og loforð sín um að settur verði stokkur í Miklubrautina á þessu kjörtímabili. Það liggur fyrir að ekkert fé verður lagt í það verkefni samkvæmt þessari áætlun ef við erum að tala um stokkinn, og ef eitthvað kemur verður það ekki fyrr en 2009. Það verður því ekki miklu meira gert en rétt að hefja þær aðgerðir ef á annað borð verður ráðist í það. Hér er sem sagt öllu slegið á frest og þær fjárveitingar sem eru til samgöngumála í höfuðborginni og á svæðinu öllu eru nánast eins og upp í nös á ketti.

Þessum sjónarmiðum vildi ég koma að við þessa umræðu, frú forseti, og endurtaka þá skoðun mína að yfirlýsingin sem fylgir nefndarálitinu frá tveimur hæstv. ráðherrum er yfirlýsing um það hversu ástandið er bágborið.