133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[20:34]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég er búinn að koma því frá mér í andsvari við hv. þm. Ellert B. Schram sem ég vildi segja um Miklubraut og mislægu gatnamótin í Reykjavík, hef að vísu ekki vikið að Sundabrautinni sem er náttúrlega framtíðarsamgöngubót við Reykjavík og við landið, tenging Reykjavíkur við landið og tenging landsbyggðarbúa við Reykjavík. En nóg um það.

Í þessari stuttu ræðu sem ég hyggst flytja vil ég víkja aðeins að stöðu vegamála í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi. Sem betur fer er það sums staðar í þokkalegu lagi og horfur eru á að það verði enn betra innan mjög skamms tíma. Ég minni t.d. á Þverárfjallsveg sem mun væntanlega ljúka og tengja saman með verulegri styttingu byggðirnar við Húnaflóa annars vegar og hins vegar byggðirnar í Skagafirði auk þess sem vegalengdin frá Skagafirði til Reykjavíkur styttist um þó nokkuð marga kílómetra, að mig minnir um 30 km miðað við núverandi akstursleið.

Síðan er verið að lagfæra veginn í Borgarfirði þó þar hafi svolítið verið stoppað við vegna sigs á vegstæðinu en þar er verið að bæta vegina verulega til framtíðar. Einnig hefur verið gert mikið átak í kjördæminu á Snæfellsnesi. Í því flýtifé sem var að koma og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson gerði grein fyrir, koma m.a. 100 millj. í Fróðárheiði á árinu 2009 til að flýta því að hægt sé að klára þann veg sem núna er reyndar innansveitarvegur með sameiningu sveitarfélaganna á nesinu og allt gott um það að segja.

Við höfum sem sagt notið þess að gera mjög merka og góða áfanga víða í vegakerfinu í Norðausturkjördæmi. Vandinn er hins vegar sá að þar er mjög mikið eftir, vægast sagt, og þar búum við við algerlega ónýta vegi á sumum svæðum. Þess vegna horfa menn sérstaklega til þess að þar þurfi að gera verulegt átak eins fljótt og mögulegt er til þess að styrkja byggðina á svæðinu. Ég tala alveg sérstaklega um Vestfirði í þessu sambandi vegna þess að þar er ástandið verst. Það fer ekki á milli mála ef við lítum yfir Norðausturkjördæmi að þá er ástandið verst í okkar kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, að því er varðar samgöngur. Þá er ég að tala um þær þjóðleiðir sem við þurfum að ferðast á til þess að komast á þjóðveg 1 annars vegar og hins vegar þær þjóðleiðir sem við þurfum að flytja nánast öll okkar aðföng á með flutningabílum í dag. Margir þessir vegir eru malarvegir enn þá, lélegir malarvegir, meira að segja svo lélegir að eins og ástandið hefur verið á þeim undanfarið hafa menn verið að keyra jafnvel á 20–40 km hraða út allan Ísafjörð, fyrir Reykjafjörð og fyrir Vatnsfjörð á leiðinni til Ísafjarðar eða frá Ísafirði. Það verður að segjast alveg eins og er að sá vegur er varla ökufær. Það er verið að hefja þar framkvæmdir og við væntum að þeim ljúki sem allra fyrst og vonandi lýkur þeim seint á árinu 2008 eða á árinu 2009 þannig að tengja megi saman á bundnu slitlagi þá kafla sem búnir eru í inndjúpi annars vegar og útdjúpinu hins vegar. Þetta er varðandi Djúpið.

Ef við horfum hins vegar á hvað er að milli byggðarlaganna á Vestfjörðum þá kannast allir við Óshlíðarveg og þarf ekki að fara mörgum rökum um það að sá vegur er hættulegur og búið er að ákveða að gera þar jarðgöng. Menn hefðu betur gert það fyrir 20 árum. Þá voru ýmsir á Vestfjörðum, m.a. sá sem hér stendur, áhugamenn um að fara frekar jarðgangaleið til Bolungarvíkur en að fara Óshlíðarleiðina, en hún var valin. Í svari sem ég fékk frá samgönguráðherra nýlega þegar ég spurði um viðhald vega á Vestfjörðum kom í ljós að viðhald á Óshlíð var tæpar 900 millj. — sagt og skrifað 900 millj. — á síðustu 12–14 árum, en viðhald í Vestfjarðagöngum eftir að þau voru tekin í notkun árið 1996 aðeins 82 millj. og hefur aldrei verið sett bundið slitlag í Vestfjarðagöng eftir að þau voru lögð, ekki frekar en í Hvalfjarðargöng með allri þeirri geysilegu umferð sem þar hefur verið. Þar hefur ekki verið sett nýtt slitlag eftir því sem ég veit best frá því að göngin voru tekin í notkun. Það segir okkur auðvitað að vegir sem eru í fjöllunum og fara undir fjöllin og eru með stöðugu hitastigi, ekki frosti, ekki úrkomu, ekki saltburði o.s.frv. endast miklu betur en gerist almennt.

Þess vegna eigum við, hæstv. forseti, að horfa til þessara lausna á þeim hlutum landsins þar sem fjallvegirnir eru erfiðastir og mestir að leysa okkur frá fjallaklifrinu og hættulegu hlíðunum og komast frekar undir fjöllin og ná fram styttingu í leiðinni.

Við fengum sem betur fer Vestfjarðagöng. Þau hefðu gjarnan mátt koma miklu fyrr til þess að það hefðu náðst af þeim meiri samlegðaráhrif milli byggðanna en varð kannski síðar vegna þess að byggðirnar voru farnar að veikjast. Hvað um það, þau hafa gerbreytt mannlífi og samskiptum fólks á norðanverðum Vestfjörðum, þ.e. milli Dýrafjarðar, Önundarfjarðar, Súgandafjarðar og Ísafjarðar, gerbreytt því og það hugsar sig enginn um í dag hvort hann langar í kaffi vestur á Flateyri vetur, sumar, vor eða haust, það tekur u.þ.b. korter. Það veltir því enginn fyrir sér í dag. En ef menn hefðu ætlað að gera það að vetrarlagi fyrir nokkrum árum hefði verið best fyrir þá að panta sér flug til Reykjavíkur og síðan aftur frá Reykjavík á Önundarfjarðarflugvöll og þá hefðu þeir kannski komist um kvöldmatarleytið í kaffi. Þannig var það, hæstv. forseti.

Á milli suður- og norðursvæðis Vestfjarða er það enn þannig að það er ekki hægt að ferðast þar á milli. Hrafnseyrarheiði er alger farartálmi, búin að vera það lengi, áratugum saman og öllum verið það ljóst. Ég hygg að fyrsta áætlunin um að tengja svæðin saman hafi fæðst 1963 — 1963, sagt og skrifað — og ætli það verði fyrr en 2013 sem því lýkur ef við ætlum að halda þeim hraða sem nú er í samgönguáætlun að tengja þessi svæði saman, 50 árum eftir að hugmyndin fæddist um að tengja þau saman. Þetta er það sem við búum við.

Þetta gengur ekki, hæstv. forseti. Þess vegna hljótum við þingmenn Vestfjarða, sérstaklega í þeirri stöðu sem byggðirnar eru sums staðar í í dag, að reyna að þoka því framar þar sem bæði er búið að rannsaka berglögin og langt komið í að hanna legu jarðganganna milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar að reyna að þoka þeirri framkvæmd framar á framkvæmdatímann. Við hljótum að gera það til að reyna að ná þessum byggðum saman í eðlilegt samgönguumhverfi. Það er hægt með nútímatækni að ganga þannig frá samgöngum milli norðursvæðis og suðursvæðis Vestfjarða að það eigi ekki að taka nema 45–50 mínútur að aka frá Bíldudal til Ísafjarðar með heilsárssamgöngum sem allir geta treyst á.

Þetta vildi ég sagt hafa, hæstv. forseti, um þennan hluta samgangna á Vestfjörðum sem byggja á því að tengja saman byggðirnar og reyna að efla þær, til að þær finni betur til styrks síns með því að hafa eðlileg og varanleg samskipti sín á milli.

Hæstv. forseti. Ég er búinn að geta um framkvæmdirnar í Djúpi en síðan er á Barðaströndinni svokallaður Vestfjarðavegur sem þarf að koma á bundnu slitlagi og gera til góða með nútímaaðferðum. Þar er m.a. verið að tala um að fara yfir þrjá firði og ná verulegri styttingu af veginum eins og hann er í dag. Margir þekkja Bjarkalund, þann veitingastað og það svæði og með þeirri aðgerð hygg ég að við værum ekki nema 15–20 mínútur að aka frá Bjarkalundi vestur á Skálanes en þangað erum við um klukkutíma í dag með því að fara yfir tvo hálsa og fyrir þrjá firði. Það sjá það allir í hendi sér hversu geysilegt stökk fram á við það væri þegar við værum komin á bundið slitlag í botni Kollafjarðar. Þá spyrja menn sig auðvitað: Og hvað svo? Hinum megin við, norðan við Kollafjarðarheiðina, er svo annað bundið slitlag í Ísafjarðardjúpi og þá mun auðvitað koma æpandi krafa á það að tengja þessa vegi saman þótt menn átti sig kannski ekki alveg á því í dag hvaða auðlegð felst í því að nýta þá vegi sem þarna eru fyrir þegar þeir eru komnir með bundið slitlag. Þá er akstursleiðin frá Ísafirði komin niður fyrir 400 km og á láglendisvegi alla leiðina.

Ég kalla það láglendisveg að eiga þess kost að fara yfir Heydal, fara um Skógasand og fara yfir Heydal, ef veður er svo, og Brattabrekka er ekki lengur bratta brekka. Þar erum við að horfa til þeirra áfanga sem þegar er lokið. Búið er að leggja bundið slitlag á Svínadal milli Búðardals og Saurbæjar. Við erum því vissulega að horfa til þess, Vestfirðingar, að gert verði átak og landsmenn séu sammála því að það beri að gera átak á Vestfjörðum í því að koma samgöngunum í viðunandi horf fyrir framtíðina vegna þess að menn deila ekki um að þetta þurfi að gera. Menn eru fyrst og fremst að velta fyrir sér forgangsröðuninni. Það er enginn að deila við okkur Vestfirðinga um að það þurfi að laga þessa vegi. Þetta er spurning um það að ná fram flýtingu á verkefnunum þannig að við náum að komast í 21. öldina og förum af hestagötuöldinni. Það er það sem við erum að tala um. (JBjarn: Þá þarf að skipta um ráðherra.) Það stendur væntanlega til, hv. þingmaður, að skipta um ráðherra og ég vænti þess að eftir alþingiskosningar í vor takist okkur að skipta um ríkisstjórn í landinu. Ég heyrði það á heitstrengingum hv. þingmanns áðan í pontu að hann vildi gera verulegt átak í því að takast á við þær samgöngubætur sem þyrfti að takast á við, m.a. á Vestfjörðum. Ég er honum sammála um það og það er líka annar hluti landsins, norðausturhornið, sem hefur setið eftir og þarf að gera átak í. (Gripið fram í: Það dugar að gera nýjan veg.)

Þetta vildi ég segja, hæstv. forseti, og þess vegna er það að við horfum til þess í fyrsta lagi að koma malarvegunum undir bundið slitlag og að komast í þá áfanga sem stytta vegalengdir milli fjarða og kaupstaða þannig að það verði varanlegar samgöngur. Ég veit að þingmenn sem eru vel kunnugir um land allt og hafa farið um þessa vegi átta sig á því hvað ég er að tala um og skynja hvað í því felst ef menn geta lagfært samgöngur á milli staða. Það er mönnum löngu orðið ljóst.

Einn vinur minn á Drangsnesi mælti einu sinni sérstaklega fyrir því að leggja veginn fljótt yfir Arnkötludal til að ná 40 km styttingu fyrir t.d. byggðirnar á Ströndum til Reykjavíkur. Arnkötludalurinn er mjög góð framkvæmd til að ná saman samtengingu byggðanna á Ströndum við byggðirnar í Dölum og eins til að stytta vegalengdir, það er ekki spurning. Það felst í því sama stytting og kom þegar Hvalfjarðargöngin voru gerð. Það munar jafnmikið um það fyrir Strandabúana og Dalafólkið að komast um Strandir til að eiga samskipti og okkur sem erum að koma norðan að til að geta farið yfir Arnkötludal eins og það munaði fyrir Vestfirðinga að komast undir Hvalfjörð á sínum tíma. Við erum að tala um 40 km. Það munar jafnmikið um það. Hver vildi þurfa að keyra fyrir Hvalfjörð í dag? Auðvitað enginn. Þó sagði einn vinur minn norðan af Ströndum þegar hann var að deila við vini sína um vegstæðið við Arnkötludal að ef þeir þyldu ekki styttinguna gætu þeir bætt sér það upp með því að keyra fyrir Hvalfjörð, þá næðu þeir tímanum.

Hæstv. forseti. Mjög brýnt er að taka á þessum málum og við getum ekki annað, þingmenn Norðvesturkjördæmis, en reynt eftir fremsta megni að setja þau í forgang svo við horfum til þess í framtíðinni að við færum okkur hratt fram í því að komast í eðlilegar samgöngur til samræmis við það sem er hér víðast hvar, sem betur fer. Við höfum að vísu enn þá þröskulda því við gerðum ein mistök á Vestfjörðum nýverið. Við fórum yfir Klettshálsinn sem að mínu viti voru alger mistök. Við áttum að fara undir Klettshálsinn, fara mun neðar með veginn og fara með holu í gegn sem yrði 2,5–2,6 km. Þá væri Klettshálsinn ekki sá farartálmi að um leið og hreyfir veður á Vestfjörðum þá heyrist tilkynning í útvarpinu: Ófært á Klettshálsi. Á splunkunýjum uppbyggðum vegi. Hvað um það. Við hljótum að horfa til þeirrar framtíðar að reyna að komast áfram í samgöngumálum okkar og það skiptir miklu máli fyrir byggðirnar á Vestfjörðum og íbúana að ná fram slíkum áföngum.

Þetta vildi ég segja, hæstv. forseti, og ætla ekki að lengja umræðuna en lýsi því yfir að ég er tilbúinn að vinna með þingmönnum Norðvesturkjördæmis og íbúum Vestfjarða að því að reyna að þoka þeim málum áfram eins og best verður á kosið og einnig í samstarfi við aðra þingmenn sem ég veit að skilja vel vanda okkar. Alveg á sama hátt og við landsbyggðarþingmenn áttum okkur á því að umferðaröngþveiti í Reykjavík getur ekki annað en vaxið og það verður að taka á því. Spurningin er: Hver er hagkvæmasta lausnin? Þess vegna fór ég upp í pontu áðan, landsbyggðarþingmaðurinn, og benti á þær hugmyndir sem ég held að séu raunhæfar til þess að ná fram betri samgöngubótum í Reykjavík en menn eru jafnvel að hugsa um í dag.