133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[20:50]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þm. Halldóri Blöndal um að ljúka þurfi hringveginum. Það er líka hægt að ná fram verulegri styttingu á hringveginum, t.d. ef við horfum á veginn á Austfjörðum um Öxi. Þá fáum við hvergi eins marga kílómetra í styttingu frá Reykjavík og inn á miðsvæði Austurlands en einmitt um þá leið.

Ég veit að hv. þm. Halldór Blöndal þekkir það jafn vel og ég að það væri ekki lítil samgöngubót fyrir Vopnfirðinga að komast undir fjöllin, yfir á láglendið austur í Héraðsflóa og tengjast þannig Egilsstöðum örskotsfljótt.