133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

breyting á IV. viðauka við EES-samninginn.

648. mál
[21:02]
Hlusta

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta utanríkismálanefndar. Ég skila séráliti í þessu máli og stend ekki að afgreiðslu tillögunnar. Ástæðan er sú að þetta er hluti af svonefndri orkutilskipun Evrópusambandsins sem ég hef verið andvígur frá upphafi að Ísland gerðist aðili að. Við vöruðum við því strax á sínum tíma, nokkrir hér á þingi, þegar þessi smíð var í undirbúningi að þetta mundi henta Íslandi afar illa og hvöttum til þess að allt yrði gert sem hægt væri til þess að Ísland fengi varanlega og fulla undanþágu frá málinu.

Lítið var á það hlustað og að því er virðist því miður fremur lítið með það gert. Mikið andvaraleysi ríkti þegar upphaflega tilskipunin kom til staðfestingar á Alþingi. Það var í rauninni ekki fyrr en menn stóðu frammi fyrir bláköldum veruleikanum að það þurfti að umbylta öllum orkumálum, og skipulagi þeirra hér, að það fóru að renna tvær grímur á mann og annan og það fjölgaði hratt í því liði sem hefði gjarnan viljað vera betur vakandi á sínum tíma og leggja til að við hefðum staðið öðruvísi að málum. Ég hygg að það hafi fyrst og fremst verið ég og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sem þá var á sinni tíð sem reyndum að vara við því í upphafi að út í þetta yrði farið.

Hér er síðan að koma breyting á tilskipuninni sem er auðvitað ekki veigamikil. En það athyglisverða er kannski að í tengslum við hana óskaði iðnaðarnefnd eftir ítarlegri upplýsingum um málið því þarna er m.a. verið að breyta hlutum sem lúta að stöðu lítilla og einangraðra kerfa, eins og það er kallað, eða örkerfa. Þá kemur í ljós, þegar betur er skoðað, að fjölmargar undanþágur af ýmsum toga hafa verið veittar frá tilskipuninni. Þannig er það að þegar þessi greinargerð, sem okkur barst síðan frá ráðuneytinu, og ekki vannst nú ráðrúm til að hafa sem fylgiskjal með þessu nefndaráliti, en ég veit að menn geta orðið sér úti um hana þeir sem áhugasamir eru, en þegar henni er flett kemur í ljós að undanþágumöguleikarnir og sérskilyrði eru miklum mun útbreiddari en gefið var í skyn þegar málið var kynnt á sínum tíma þegar talað var eins og það hefði verið algerlega fullreynt að Ísland gæti fengið einhverja sérstöðu.

Það kemur t.d. í ljós að Lúxemborg fékk umtalsverða undanþágu sem það hefur síðan fengið framlengda. Er þó Lúxemborg bæði stærri orkumarkaður og auðvitað samtengdur um orkumarkaði meginlandsins. Eins og kunnugt er er einn helsti tilgangur tilskipunarinnar að greiða fyrir viðskipti með raforku yfir landamæri og gera allt meginland Evrópu að einum samtengdum samkeppnismarkaði á sviði raforkudreifingar. Sömuleiðis kemur í ljós að eyjarnar, bæði þær sem tilheyrt hafa Evrópusambandinu lengi eða um nokkurt skeið, eins og eyjar sem tengjast Portúgal og Spáni, sem og Kýpur, Malta og fleiri, hafa fengið umtalsverðar undanþágur, ekki eru gerðar sömu kröfur til þeirra og þær eru undanskildar mörgum köflum orkutilskipunarinnar.

Þá vakna spurningar um hvers vegna í ósköpunum ekki var mögulegt að gera eitthvað sambærilegt fyrir Ísland. Þó svo að Ísland kunni sem heild að liggja svolítið yfir mörkunum sem notuð eru til að skilgreina lítil og einangruð kerfi er t.d. ljóst að ef raforkuframleiðsla til stóriðju er tekin frá er almenni markaðurinn á Íslandi langt undir öllum viðmiðunarmörkum í þeim efnum. Þá hefði ein möguleg leið verið í þessum efnum fyrir Íslendinga að biðja um að þeirra almenni markaður gæti lotið öðrum reglum. Það er sem sagt þannig að Lúxemborg, Kýpur, Malta, Azoreyjaklasinn, Madeiraeyjaklasinn og fleiri svæði hafa fengið mismunandi tegundir af undanþágum eða sérframkvæmd hvað þetta varðar og bendir til þess að ef betur hefði verið róið á sínum tíma hefði mátt kalla hið sama fram fyrir Ísland.

Ég hygg að að hluta til séu þær upplýsingar sem við fengum á grundvelli þessarar greinargerðar frá ráðuneytinu mönnum nýjar fréttir. Ég verð að minnsta kosti að játa það að þó ég teldi mig hafa þekkt þokkalega til málsins þá kom mér á óvart hversu svigrúmið fyrir undanþágur eða sérframkvæmd var mikið. Það ber vissulega að halda því til haga, svo öllum sé nú gert rétt og satt til, að fulltrúar Íslands í viðræðum í undirbúningi tilskipunarinnar eða aðdraganda hennar á árunum 1995 og 1996 spurðu vissulega að því og bréfuðu það sömuleiðis að þeim kæmi spánskt fyrir sjónir að Ísland þyrfti að falla þarna alveg undir þar sem það væri ekki tengt raforkukerfi meginlandsins o.s.frv.

Þetta er rakið í greinargerðinni í V. kafla þar sem farið er yfir aðdraganda að upptöku tilskipunar 96 frá 92/EB í EES-samninginn og ég hvet áhugasama aðila til að kynna sér þær bréfaskriftir sem ná allt fram á árið 1997 eða 1998. Ég er enn þeirrar skoðunar, eins og ég hef verið, að það hafi verið mikil mistök fyrir okkur Íslendinga að lenda inni í þessu og það hefði verið mikið á sig leggjandi til að þurfa ekki að fara í þær breytingar á raforkumarkaðnum hér, alla vegana ekki með þeim hætti sem gert hefur verið, sem innleiðing orkutilskipunarinnar hefur haft í för með sér og nýju lögin um skipulag raforkumála sem sannanlega hafa leitt til umtalsverðrar hækkunar á raforkuverði. Og þar tilfinnanlegast sem síst skyldi, þ.e. í dreifbýlinu þar sem dreifbýlisgjaldskrár Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða gilda og þar sem er um að ræða raforkusölu til húshitunar.

Þetta liggur allt fyrir og það er ekki lengur deilt um það að afleiðingarnar af þessu urðu umtalsverðar hækkanir á raforkuverði. Ég var andvígur þessu ráðslagi frá byrjun og er það enn.