133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

breyting á IV. viðauka við EES-samninginn.

648. mál
[21:08]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það var fróðlegt að heyra þessar upplýsingar sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór með og ýtir undir þá umræðu sem fór fram á sínum tíma þegar við vorum að ræða raforkulögin og breytt fyrirkomulag á raforkumarkaði hér á landi, að það hefði í raun og veru ekki verið nein sérstök ástæða til þess fyrir Ísland að taka upp sama fyrirkomulag og var innan Evrópusambandsins að því er varðaði raforkumál. Allt tal um það og þær fullyrðingar sem hér voru bornar á borð, þá af hæstv. iðnaðarráðherra, virðast að mörgu leyti ekki hafa haft við nein sérstök rök að styðjast. Að við mættum ekki hafa undanþágu varðandi okkar eigin raforkumarkað.

Síðan er það svo, hæstv. forseti, og er ekki hægt að draga neina fjöður yfir það og engin ástæða til heldur, að í kjölfar þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á raforkumarkaði hefur raforkuverð á landsbyggðinni sérstaklega hækkað gífurlega. Ég var nýlega staddur norður í Bolungarvík og var að skoða reikninga hjá íbúa þar sem annars vegar var með reikningana fyrir íbúðarhúsnæði sitt og hins vegar fyrir verkstæði og verslunarhúsnæði. Þegar það var borið saman við sambærilegan rekstur, annars vegar í Garðabæ og hins vegar á Suðurnesjum, og raforkunotkun til ljósa annars vegar og hins vegar hitaorku, kom í ljós, gróft reiknað, að kostnaður við ljósanotkun var þrefaldur. Rafmagnskostnaður á Vestfjörðum fyrir sambærilegt húsnæði hér á Reykjavíkursvæðinu var þrefaldur.

Ekki munaði eins miklu á kyndingarkostnaðinum enda voru niðurgreiðslur fyrir kyndingarkostnað auknar nokkuð á köldum svæðum, m.a. vegna gagnrýni sem kom hér upp í kjölfar breytinganna á raforkulögunum og þeirra hækkana sem þá komu fram, því var reyndar haldið fram hér í umræðu, ég held bara í hálft annað ár, að það mundi í mesta lagi valda 3% hækkun. Í mesta lagi. Örfáum hundraðköllum eins og það var nú orðað. En staðreyndin er sú, hæstv. forseti, að þau dæmi sem maður hefur verið að skoða og sjá þau sýna þetta. Það er þrefalt raforkuverðið á Vestfjörðum annars vegar miðað við sambærilegar eignir hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu og Suðurnesjum fyrir rafmagn til ljósa. Það er tvöfalt miðað við kyndingarkostnað.

Þannig að þegar þetta bætist ofan á ýmislegt annað, eins og mikinn flutningskostnað vestur á firði o.s.frv. og til annarra landsvæða, eru kjör íbúanna náttúrlega ekkert sambærileg. Þau eru það einfaldlega ekki. Þetta er bara afleiðing af þeirri ákvörðun sem tekin var af ríkisstjórninni að fara í það far sem farið var með raforkumarkaðinn, og rétt að ítreka að það voru mikil mistök að fara þá leið sem farin var. Hún var ástæðulaus og leiddi til aukins kostnaðar. Það er að bitna allharkalega á íbúum hinna dreifðu byggða í dag og ekki sjáanlegt miðað við það sem tekið hefur verið upp til að minnka þann aðstöðumun, m.a. með niðurgreiðslum á húshitunarkostnaði, að þar dragi meira saman á næstunni heldur en þegar er orðið með íbúum höfuðborgarsvæðisins og íbúum hinna dreifðu byggða.

Það er nú afleiðingin af stjórnarstefnunni og við sitjum uppi með það og væntanlega minnast kjósendur þess þegar kemur að kjörborðinu í vor hvernig að þessum verkum öllum var staðið og hvernig þeim var lýst á sínum tíma án þess að það fylgdu því neinar þær efndir sem hér voru bornar á borð fyrir menn varðandi kostnað og annað slíkt þegar þetta var gert. Þegar við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lögðum til að gildistöku raforkulaganna yrði frestað um eitt ár til þess að átta sig betur á því hvað þetta þýddi nú í raun og veru var það fellt af ríkisstjórnarflokkunum eins og menn muna. Menn töldu að engin ástæða væri til þess enda væru viðvörunarorð okkar til einskis að því er ríkisstjórnarfulltrúarnir töldu. En annað hefur nú komið í ljós og menn búa nú við skaðann af þessari lagasetningu.