133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

íslenska friðargæslan.

443. mál
[21:29]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem í ræðustól til að lýsa ánægju minni með að nú hilli undir sátt um að setja íslensku friðargæslunni lagaramma og sérstaklega eftir að málið var afgreitt upprunalega út úr utanríkismálanefnd í ágreiningi með meirihlutaáliti og minnihlutaáliti og ekki leit út fyrir að um lagasetningu á þessu sviði yrði að ræða á þessu þingi þar sem ágreiningur var í málinu.

Á grundvelli breytingartillagna sem unnar voru að mestu leyti af hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur og lagðar fram sem breytingartillögur okkar í minni hlutanum var ljóst að ekki bar mikið á milli minni hluta og meiri (Gripið fram í.) hluta. Því var haldið áfram að skoða hvort ekki næðist samstaða um að breyta 1. gr. í frumvarpinu með þeim hætti að allir aðilar gætu sætt sig við hana.

Niðurstaðan varð sú, eins og fram hefur komið, að það tókst og því erum við hér að horfa fram til þess að okkur takist að setja íslensku friðargæslunni lagaramma og eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni þá er það afar mikilvægt fyrir það fólk sem vinnur fyrir okkur í þessum störfum erlendis við erfiðar aðstæður oft og tíðum að um þessa starfsemi ríki bæði sátt hér heima og eins að lagaramminn um starfsemina sé skýr.

Því er mikilvægt að setja þau lög sem við erum hér að ræða og fagna ég því að samstaða hefur náðst og Samfylkingin mun standa að og styðja þetta frumvarp.