133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

Vísinda- og tækniráð.

295. mál
[21:34]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Vísinda- og tækniráð.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín fulltrúa frá forsætisráðuneyti og gesti.

Í frumvarpinu er lagt til að starfsemi Vísinda- og tækniráðs verði útvíkkuð með þeim hætti að auk þess að taka til umfjöllunar málefni vísinda, tækni og nýsköpunar hafi það einnig með höndum umfjöllun um málefni atvinnuþróunar. Þetta frumvarp er lagt fram samhliða frumvarpi iðnaðarráðherra um Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem er 280. mál og frumvarpi viðskiptaráðherra um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins sem er 279. mál.

Iðnaðarnefnd hefur lagt til að frumvarpi til laga um Nýsköpunarmiðstöð Íslands verði breytt þannig að í stað þess að Iðntæknistofnun Íslands, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Byggðastofnun sameinist verði það eingöngu tvær fyrstnefndu stofnanirnar sem sameinast. Því leggur nefndin til breytingar á frumvarpinu þess efnis að horfið verði frá því að gera breytingar á starfsemi Vísinda- og tækniráðs og breyta heiti þess.

Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem lagðar eru fram á sérstöku þingskjali.