133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum.

42. mál
[21:36]
Hlusta

Frsm. menntmn. (Dagný Jónsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla örstutt að gera grein fyrir nefndarálitinu en í tillögunni er gert ráð fyrir að menntamálaráðherra skipi nefnd sem kanni leiðir til að aðstoða ungmenni við að taka skynsamlegar ákvarðanir í tengslum við náms- og starfsval.

Hv. menntamálanefnd tekur undir sjónarmið í greinargerð um að farsælar lausnir á vandamálum tengdum brottfalli úr skóla geti leitt af sér mikinn þjóðfélagslegan ávinning.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita allir hv. þingmenn í menntamálanefnd. Sem 1. flutningsmaður málsins, en það voru fleiri hv. þingmenn sem voru flutningsmenn, vil ég þakka kærlega fyrir að málið skuli vera afgreitt og vil segja að hægt er að nota þá vinnu sem verið er að ljúka við hvað varðar tíu punkta samkomulagið sem góðan grunn í þessari vinnu.

Vegna tímaleysis ætla ég ekki að fara í dýpri umræðu um þetta en vildi koma á framfæri þökkum og vona að þetta verði til að efla náms- og starfsráðgjöf hér í landinu og einnig vonast ég til að löggilding þessarar stéttar fáist fram.