133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum.

42. mál
[21:37]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það var ánægjulegt að samstaða náðist um það í menntamálanefnd að afgreiða þetta mál úr nefndinni þannig að það fái afgreiðslu hér.

Náms- og starfsráðgjöf er mjög af skornum skammti í íslenska skólakerfinu og verður þetta mál vonandi til þess að hún verði efld mjög, eins og hv. framsögumaður kom inn á áðan. Það vantar mikið upp á að fjöldi þeirra sé nægjanlegur eða þessu sé gert nógu hátt undir höfði í skólakerfinu. Brottfall er mjög hátt á Íslandi og eiginlega séríslenskt vandamál á Norðurlöndunum þar sem samkvæmt rannsóknum má ætla að hlutfall þeirra sem ekki ljúka framhaldsskólanámi eða neinu formlegu námi sé yfir 40% sem er gífurlega hátt og í rauninni óþekkt brottfall í samanburðarlöndum okkar.

Það sem talið er að við fengjum sérstaklega út úr aukinni starfs- og námsráðgjöf væri að nemendurnir væru miklu betur undir það búnir að taka ákvörðun um námsleið og hvaða nám þeir hafi í raun og veru áhuga á og telji við sitt hæfi og líklegir þá til að ljúka því námi. Við næðum einnig fram eðlilegri dreifingu milli þeirra sem fara í bóknám og verk- og listnám hvers konar. Hér er því um að ræða mjög mikilvægt menntamál. Það er flutt í þriðja sinn og nær nú fram að ganga og óska ég hv. 1. flutningsmanni, Dagnýju Jónsdóttur, til hamingju með það. Lýsi ég aftur ánægju minni með að málið náði fram að ganga. Þetta er mjög þarft og gott mál.