133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

náttúruvernd.

639. mál
[21:54]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, með síðari breytingum. Nefndin fékk til sín nokkra góða gesti. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Sökum mikils áhuga þingheims þá tel ég mér rétt og skylt að upplýsa hvaða gestir þetta voru. Þeir voru: Bergur Sigurðsson frá Landvernd, Sveinn Jakobsson frá Náttúrufræðistofnun, Árni Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, (Gripið fram í.) Sigrún Ágústsdóttir og Sigurður Ármann Þráinsson frá umhverfisráðuneytinu. Frá Umhverfisstofnun komu Árni Bragason og Davíð Egilsson.

Með frumvarpinu er kveðið á um tvenns konar breytingar á lögum um náttúruvernd. Er annars vegar lagt til að möguleikar til að kæra þær stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna verði auknir og hins vegar er lagt til að kveðið verði á um aukna vernd bergtegunda. Hvað síðari breytinguna varðar er lagt til að ákvæði náttúruverndarlaga verði styrkt þannig að þau nái jafnframt til bergtegunda og bergforma og að óheimilt verði að losa um, nema brott eða skemma sjaldgæfar tegundir steinda og bergs sem friðunarákvæðin ná til. Þá er í frumvarpinu kveðið á um að óheimilt sé að nema brott eða losa steingervinga af fundarstað.

Í 4. gr. er kveðið á um að innan friðlýstra svæða verði óheimilt að losa um, nema á brott eða skemma hrafntinnu í formi bergglers og tæra silfurbergskristalla lengri en 5 cm og einnig að hið sama gildi um sjaldgæfar tegundir steinda og bergs. Nefndin telur ákvæði 4. gr. frumvarpsins ekki nægilega vel útfært. Hún telur að á grundvelli 3. gr. frumvarpsins sé unnt að vernda hrafntinnu og silfurberg og leggur því til að 4. gr. frumvarpsins falli brott. Nefndin hvetur til þess að frekar verði hugað að efnisatriðum 4. gr.

Nefndin var sammála í þessu og leggur til að frumvarpið verði samþykkt. Undir þetta skrifa hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Guðjón Ólafur Jónsson, Mörður Árnason, Arnbjörg Sveinsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Kjartan Ólafsson, Sigurrós Þorgrímsdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir.