133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[22:16]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Langþráð mál er að komast í höfn, það hillir undir að Vatnajökulsþjóðgarður verði til. Það er sannarlega, eins og hv. formaður umhverfisnefndar sagði áðan, stórt mál en stærð er ekki endilega sama og gæði. Það skiptir okkur verulegu máli að Vatnajökulsþjóðgarður verði góður þjóðgarður, þjóðgarður sem við getum verið stolt af í einu og öllu.

Sumir segja að ekki þurfi að setja lög um Vatnajökulsþjóðgarð, það sé í lagi að stofna hann með reglugerð og það geti þess vegna verið ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra og ríkisstjórnar að gera það. Það er ekki sú leið sem hefur verið valin hér heldur er ákveðið að festa þetta í löggjöf og löggjöfin á rætur að rekja til þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi árið 1999 um að Alþingi Íslendinga vildi að stofnaður yrði Vatnajökulsþjóðgarður. Sú tillaga átti aftur rætur í annarri tillögu sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lagði fram um þjóðgarða á miðhálendinu, en hún byggði á því að Ísland yrði nánast einn stór þjóðgarður inn til landsins, stofnaður yrði þjóðgarður utan um Vatnajökul, utan um Hofsjökul, Langjökul, Mýrdalsjökul og Eyjafjallajökul. Sú hugmynd er enn til staðar og við höfum enn tækifæri til að gera svo miklu meira en það sem við erum að taka fyrsta skrefið að hér. Ég sé því og einblíni á tækifærin sem eru fólgin í því skrefi sem hér er stigið.

Margt er umdeilanlegt í því frumvarpi sem við nú samþykkjum. Ég segi og skrifa: Þetta er stórt fyrsta skref og það verður að tryggja að framtíðin beri síðan það í skauti sér að við höldum skynsamlega á málum og að við tryggjum að stjórnsýsla garðsins verði með þeim hætti að vel megi við una, að fagmenn, bæði heima í héraði og á höfuðborgarsvæðinu — sem virðist stundum hafa verið hálfgert skammaryrði þegar við höfum verið að ræða um Vatnajökulsþjóðgarð. Það er ákveðin hræðsla í gangi í tengslum við stjórnsýslu þeirra sem hafa aðsetur á höfuðborgarsvæðinu, ég segi að sú hræðsla sé fullkomlega ónauðsynleg og það hefur verið leitt í ljós þegar nefndin vann í málinu að ákveðin tortryggni sem hefur verið til staðar er í raun eitthvað sem nokkurn veginn heyrir sögunni til vegna þess að samskipti Umhverfisstofnunar og heimamanna hafa verið að breytast gríðarlega mikið á undanförnum árum og það hefur verið meðvituð ákvörðun Umhverfisstofnunar að vinna friðlýsingu svæða og stjórnsýslu þjóðgarða í sátt og samvinnu við heimamenn.

Ég held að módelið verði á endanum það að samvinna heimamanna og Umhverfisstofnunar eigi eftir að verða gjöful. Ég trúi því og treysti líka að náttúruverndarlögin komi til með að verða sú löggjöf sem gildir í garðinum. Í tilefni af því að ákveðnir þættir eru í frumvarpinu sem í sjálfu sér fara á svig við náttúruverndarlöggjöfina — sem mér finnst afar miður — nefni ég þar 38. gr. náttúruverndarlaga sem varðar framkvæmdir í þjóðgarðinum. Ég held að ákveðnar bragarbætur eigi eftir að gera í þessu efni sem tryggi að náttúruverndarlöggjöfin gildi um garðinn allan.

Varðandi þá stjórnartilhögun sem hefur verið valin hérna hef ég talað fyrir ákveðinni draumsýn í þessum efnum. Ég er þeirrar skoðunar að stjórnsýsla þjóðgarða og friðlýstra svæða þurfi að vera í grunninn á einni hendi þó að starfið sé unnið af því fólki sem er næst viðkomandi friðlýstum svæðum og þjóðgörðum. Ég sé þess vegna fyrir mér þjóðgarðastofnun eða einhvers konar stofnun sem annist slíka umsýslu, sem hefur með hendi verndaráætlanirnar þannig að það sé heildstæð stefnumörkun á einum stað sem tryggir að sambærilegar reglur séu við lýði við mótun þeirra friðlýstu svæða og þjóðgarða sem við Íslendingar eigum. Í mínum huga er það framtíðin ásamt því að heimamenn, fagfólk og áhugamenn og sveitarstjórnarmenn hafi sterka og öfluga aðkomu.

Segja má að stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs, eins og hér er búið um hnútana, verði eins konar ríkisstofnun. Í sjálfu sér samrýmist það ekki öðrum lögum sem við störfum eftir hvernig þeirri ríkisstofnun er komið á laggirnar. Þarna er formaður stjórnar nokkurs konar forstjóri garðsins en það eru engar reglur um hæfiskilyrði eða ráðningu eða neitt slíkt. Við höfum sömuleiðis fengið ábendingar frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga um að það eigi eftir að ganga frá öllum hlutum er varða starfsmennina. Það er mikilvægt í mínum huga að réttarstaða þeirra starfsmanna sem starfa í þjóðgarðinum núna, landverðir og aðrir sem sinna störfum í Skaftafellsþjóðgarði og þeir sem annast friðlöndin sem nú þegar eru til staðar, séu hafðir með í ráðum í þessum efnum og að réttarstaða þeirra sér tryggð og talað sé við þetta fólk í tíma þannig að það sé líka með, ekki bara sveitarstjórnarfólk í héraði heldur líka fólkið sem hefur rekið þessi friðlýstu svæði okkar sem verða nú innan Vatnajökulsþjóðgarðs samkvæmt þessu lagafrumvarpi.

Skoða þarf verndaráætlunina ofan í kjölinn. Mín skoðun er sú og ég trúi því að vinnulagið sem verði ofan á í þessum efnum verði það að Umhverfisstofnun vinni tillögu að verndaráætlun sem verði síðan til skoðunar í svæðisráðunum og síðan endanlegs samþykkis í stjórn. Ég ætla að nota tækifærið og lýsa ánægju með yfirlýsingu hæstv. umhverfisráðherra áðan, sem gaf okkur það til kynna í orðum sínum að Umhverfisstofnun kæmi að stjórn garðsins. Mér finnst sú yfirlýsing gefa von um að það verði fagmennirnir á Umhverfisstofnun sem hafi með höndum meginábyrgð á gerð tillögunnar að verndaráætluninni. Ég held að hún komi til með að skipta verulegu máli, það er hún sem í sjálfu sér allt starf í garðinum byggir á og þar er auðvitað eðlilegt að þeir sem mesta reynslu hafa á landinu fái að leggja í púkk þekkingu sína og að fræðileg og faglega þekking þeirra sé til staðar fyrir þá aðila sem koma að uppbyggingu Vatnajökulsþjóðgarðs.

Ég vil segja örfá orð um fjármagn vegna stofnkostnaðar þjóðgarðsins. Ekki er gert ráð fyrir því í sjálfu sér að settir séu í þetta þeir fjármunir sem ég held að til þurfi. Mér sýnist að það sé verulega vanáætlað og nauðsynlegt er að horft sé til þess að hér erum við að stíga fyrstu skrefin að því að setja á stofn þennan stóra þjóðgarð og um hann þurfa að gilda ákveðnar reglur sem alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin hafa sett. Það kostar, það þarf fjármuni til að standa straum af því að uppfylla þær reglur. Gerð verndaráætlunar kostar fjármuni, deiliskipulagið sem þarf að gera, gönguleiðir og stígar sem þarf að gera um garðinn, allt þetta útheimtir talsvert fé sem ég held að sé nauðsynlegt að við áttum okkur á að megi ekki vera af skornum skammti, a.m.k. ef við ætlum okkur í alvöru að tryggja að þessi metnaðarfullu áform takist megum við ekki skera fjárveitingarnar við nögl.

Ég treysti því að bætt verði úr þessum formgöllum eftir því sem skrefin verða stigin. Ég hef því engan sérstakan fyrirvara við frumvarpið skrifaðan í nefndarálit, ég hef gert grein fyrir nokkrum eða örfáum atriðum af því sem kemur upp í hugann þegar þessi mál eru skoðuð.

Að lokum vil ég lýsa ánægju minni með eitt. Það tókst að lokum að fá staðfestingu umhverfisnefndar á því að þingsályktunartillaga sú sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum staðið að að flytja árum saman á Alþingi og nú síðast með þingmönnum úr öllum flokkum, þingsályktunartillaga um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum, að hún yrði afgreidd frá nefndinni með nefndaráliti þessu. Nefndin lítur svo á að með samþykkt laga um Vatnajökulsþjóðgarð hafi þessi tillaga að þingsályktun hlotið efnislega meðferð, efnislega afgreiðslu, þar sem friðlýsing Jökulsár á Fjöllum er innifalin í stofnun þjóðgarðsins.

Tillaga okkar er svohljóðandi, sem ég og við í nefndinni lítum þá á að sé komin í höfn með frumvarpi þessu, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum. Friðlýsingin taki til alls vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum að Kreppu og öðrum þverám meðtöldum með náttúrlegum rennslisháttum, þar sem hvers kyns röskun og mannvirkjagerð er bönnuð. Sérstaklega verði hugað að því við undirbúning málsins hvernig friðlýsing Jökulsár á Fjöllum skuli tengjast núverandi þjóðgarði í Jökulsárgljúfrum og fyrirhuguðum Vatnajökulsþjóðgarði og stofnun frekari þjóðgarða eða verndarsvæða norðan jökla.“

Ég lýsi ánægju minni með að tillagan skuli afgreidd í þessu nefndaráliti og lýsi því síðan yfir að huga þurfi vel að afmörkun þjóðgarðsins. Ég hef lýst óánægju með að ekki skuli vera samræmi á milli tillagnanna sem eru til staðar í skýrslu ráðgjafarnefndarinnar og skýrslu þingmannanefndarinnar, ég mundi vilja að skýrsla þingmannanefndarinnar yrði sú sem notuð yrði varðandi afmörkun svæðisins. Þar tel ég að við séum með innan marka þjóðgarðsins þau svæði sem þurfi að vera þar og ég tel að það sé eðlilegt að í fyrstu reynum við að ná sem mestu af því svæði undir garðinn og tryggja að það sé innan marka hans.

Að svo mæltu lýsi ég ánægju með að málið skuli vera komið í höfn þó að það hefði sannarlega þolað lengri umfjöllun, bæði í nefndinni og hér í sölum Alþingis.