133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[22:27]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir innlegg hennar. Það sama á við um aðra þá ræðumenn sem hér hafa talað, og það er augljóst að góð sátt er um málið og við getum verið stolt af því. Ég held að fulltrúar allra flokka hafi komið að undirbúningi þess á undanförnum árum.

Ég held hins vegar að það skipti afskaplega miklu máli, vegna þess að útgangspunkturinn í þessu, ef við ætlum að láta þetta ganga vel, er samvinna. Það var það sem við vorum að leita eftir í nefndinni. Ég held að allir nefndarmenn og ef út í það er farið flestir landsmenn hafi ákveðnar skoðanir á því hvaða svæði eigi að vera þarna inni og menn vilja held ég hafa þjóðgarðinn sem stærstan og glæsilegastan. Menn verða að hafa það í huga að ekki er með þessu, frekar en almennt um friðlýsingar, farið út í neitt eignarnám. Það þarf að vinna þessa hluti, alveg sama hvað svæðin heita, í samvinnu við þá aðila sem eiga viðkomandi svæði. Sem betur fer lofa samningaviðræðurnar um flest svæðin mjög góðu, en það skiptir máli að við sem erum á þingi og viljum málstaðnum vel gerum ekkert til að skaða það ferli. Það var útgangspunkturinn í starfi nefndarinnar, það hefur verið útgangspunkturinn í starfi ráðuneytisins og í undirbúningnum. Ég hvet þess vegna aðila og þingmenn til að vera mjög meðvitaða um að hér er um viðkvæmt mál að ræða og að afskaplega mikilvægt er að enginn fái það á tilfinninguna, hvorki þeir aðilar sem eiga þetta né neinir aðrir, að búið sé að ákveða einhverja hluti fyrir fram. Þetta er samningsferli við hagsmunaaðila. Þetta er nokkuð sem við þurfum að hafa í huga ef við ætlum að ná því markmiði sem við erum öll sammála um.