133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[22:32]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af orðum hv. þingmanns, sem ég tek heils hugar undir, má skilja að við öll sem hér erum á löggjafarsamkundunni, við sem búum í sveitarfélögunum vítt og breitt um landið, við sem störfum á vegum opinberra aðila, við sem unnum náttúrunni, séum á einu máli. Ég lít svo á að hér sé um þjóðþrifamál að ræða, mál sem öll þjóðin lætur sig skipta og lætur sér annt um, hvar svo sem fólk er í sveit sett, við hvað sem fólk starfar. Ég tel að hér sé hægt að gera glæsilegan þjóðgarð sem þjóðin á eftir að verða stolt af. Í mínum huga er eini skugginn á þessum garði sá að þarna er búið að skera fleyg með Kárahnjúkavirkjun sem ekki verður afmáð. En það er enginn skuggi í mínum huga yfir því samstarfi sem á eftir að eiga sér stað á milli þeirra aðila sem eiga eftir að koma að uppbyggingu garðsins, svo sannarlega ekki. Ég treysti á þjóðina í þessum efnum og ég trúi á að við eigum eftir að verða stolt af Vatnajökulsþjóðgarði.