133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[22:41]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa yfir ánægju með það að hv. þm. Sigurjón Þórðarson og Mörður Árnason skuli hafa svona mikinn áhuga á afstöðu minni í þessu máli. (ÖS: Þú ert aðalmaðurinn.) Já, ég veit það, hv. þingmaður. Það hefur svo sem ekkert breyst frá því í gær, eins og hv. þingmaður veit.

Eins og hv. þingmönnum er væntanlega ljóst og ætti að hafa verið ljóst af umræðum í umhverfisnefnd snýr fyrirvari minn við þetta frumvarp að stjórnskipulagi þessarar væntanlegu ríkisstofnunar. Ég hef látið það koma fram á fundum umhverfisnefndar að mér þyki það nokkuð sérstakt, svo ekki sé meira sagt. Ég tel hins vegar merkilegra og mikilvægara að af þessum þjóðgarði verði og þess vegna geri ég ekki athugasemdir við það að fyrirkomulagið verði með þeim hætti sem lagt er til og náðst hefur samstaða um við heimamenn. Það er aðalatriðið.

Ég styð frumvarpið og mun greiða því atkvæði með því stjórnskipulagi sem er gert ráð fyrir í frumvarpinu.