133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

samningur Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali.

80. mál
[22:57]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali.

Nefndin fjallaði um málið og fékk umsagnir.

Í tillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að fullgilda samning Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali, en hann var samþykktur og lagður fram til undirritunar á þriðja leiðtogafundi ráðsins í Varsjá 16. maí 2005. Ísland var í hópi þeirra ríkja sem undirrituðu samninginn sama dag en hann öðlast ekki gildi fyrr en 10 ríki hafa fullgilt hann og þar af þurfa a.m.k. átta að vera aðildarríki Evrópuráðsins. Þetta markmið hefur ekki enn náðst.

Eins og segir í nefndaráliti á þskj. 1334 er mansal mikið vandamál í Evrópu og í því sambandi vekur nefndin athygli á því að m.a. á vorfundi Evrópuráðsþingsins í Strassborg dagana 10.–13. apríl 2006 var mansal kvenna og barna til kynlífsþrælkunar í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fram undan var í Þýskalandi til sérstakrar umræðu þannig að hér er um að ræða mál sem hefur verið til virkrar umræðu hjá Evrópuráðinu.

Nefndin telur mikilvægt að gera smávægilega orðalagsbreytingu á tillögugreininni í því skyni að veita ríkisstjórninni ráðrúm til að hefja undirbúning að fullgildingu samningsins og leggur til að tillagan verði samþykkt með þeirri breytingu. Ég leyfi mér að vísa til þingskjals 1334 um orðalagið.