133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

samningur Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali.

80. mál
[23:03]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það mál sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir talar hér fyrir sem sínu síðasta máli á þessum langa þingferli er sannarlega nokkuð sem hægt er að vera stoltur af og ég óska henni til hamingju með að það skuli hafa náð alla leið út úr allsherjarnefnd því að þar er um að ræða mál sem ég tel afar brýnt að fái framgang og að Evrópuráðssamningurinn verði undirritaður hið fyrsta. Sleifarlagið sem þessi ríkisstjórn hefur sýnt í nákvæmlega þessu máli hingað til er auðvitað meira en góðu hófi gegnir. Palermo-samningurinn var undirritaður árið 2000. Það er komið á annað ár síðan starfshópur sem fjallaði um vændi skilaði niðurstöðu og þá var gefin yfirlýsing frá ráðuneytinu um að allt væri í vinnslu í ráðuneytinu með fullgildingu samningsins. Hann hefur ekki enn verið fullgiltur þannig að núna finnst mér að við eygjum von til þess að Evrópuráðssamningurinn verði fullgiltur og þá tel ég þetta mál vera mjög langt komið.

Ég er stolt af því að frumvarp mitt um fórnarlamba- og vitnavernd sem hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar, talaði fyrir rétt áðan — og fylgir þessu máli inn til ríkisstjórnarinnar og inn í frekari vinnslu — skuli fylgja þessum samningi. Ég trúi því og treysti að við sem eigum eftir að halda uppi störfum og baráttu gegn mansali og vændi eigum eftir að ná málinu í höfn á endanum.