134. löggjafarþing — 1. fundur,  31. maí 2007.

ávarp forseta.

[15:45]
Hlusta

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Ég þakka hæstv. starfsaldursforseta, Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra, árnaðaróskir í minn garð og alþingismönnum þá virðingu sem þeir sýna mér með því að kjósa mig forseta Alþingis. Ég mun leggja mig fram sem forseti við að sem best samstarf takist milli allra hv. alþingismanna um þau störf sem þjóðin hefur falið okkur í nýafstöðnum kosningum. Ég vænti einnig góðs samstarfs við hið ágæta starfsfólk Alþingis.

Ég lít svo á að það sé meginhlutverk Alþingis að sjá um að löggjafarstörfin, sem eru meginkjarni þinghaldsins, fari fram samkvæmt þeim reglum sem stjórnarskrá og þingsköp mæla fyrir um og svo sé búið að Alþingi og alþingismönnum að viðhlítandi sé. Til þingsins og okkar alþingismanna eru gerðar miklar kröfur en til þess að við þeim megi verða þarf öll aðstaða og starfskjör að vera eins og best verður á kosið.

Þótt saga þjóðarinnar sé nær okkur á Alþingi en víðast hvar annars staðar í þessu landi og þann merka arf eigi að heiðra og rækta verðum við þó ávallt að fylgja þróuninni og búa þeim fulltrúum sem hingað eru kjörnir jafngott starfsumhverfi og almennt tíðkast í samfélaginu. Þannig hlýtur það m.a. að vera eitt aðalviðfangsefni þeirrar forustu sem nú verður kosin á Alþingi að leggja drög til frambúðar um aðstöðu þingsins á Alþingisreitnum og undirbúa þær framkvæmdir sem þar eru nauðsynlegar.

Það er vinsælt nú um stundir, eins og okkur stjórnmálamönnum er í fersku minni, að kanna skoðanir fólks og viðhorf til ýmissa hluta, þar á meðal til Alþingis. Þar kemur fram að staða þingsins í huga landsmanna er ekki nægilega traust. Ég tel raunar að það sé vandasamt að túlka þær niðurstöður sem fyrir liggja um þetta efni og þar geti deilur um grundvallaratriði stjórnmálanna mótað þá mynd af Alþingi og að það hafi goldið fyrir í hugum almennings. Eigi að síður tel ég að umræðuhættir á Alþingi eigi hér nokkra sök en það er sá þáttur þingstarfanna sem er sýnilegastur okkur. Ég hvet til þess að við öll tökum saman höndum og bætum hér um. Það á að vera hlutverk okkar að setja þann svip á löggjafarsamkomuna að hún njóti virðingar með þjóðinni og hafi trúverðugleika. Sem betur fer hafa kosningarannsóknir sýnt að áhugi á stjórnmálum virðist ekki minnka meðal þjóðarinnar þrátt fyrir neikvæðar umræður og misvísandi mynd sem oft er gefin af starfi stjórnmálamanna.

Það er þrálátt viðhorf að sterk stjórnarandstaða feli það í sér að halda margar ræður og langar í þessum sal. Ég held að tími sé kominn til að endurskoða skipulag umræðu um þingmál. Alþingi er einn meginvettvangur stjórnarandstöðunnar í hinu pólitíska starfi. Hún þarf því, hver sem hana skipar hverju sinni, á því að halda að þingið hafi sterka stöðu, það njóti trausts og að vel sé að því búið, þannig að málflutningur stjórnarandstöðu og hið mikilvæga aðhaldshlutverk hennar fái hér þann búning og styrk sem bestur kostur er á. Ég er ekki að kalla eftir styttri umræðum heldur skýrari skoðanaskiptum, betra skipulagi og betri undirbúningi umræðna en oft hefur verið.

Með sama hætti þarf ríkisstjórnin og þingflokkar stjórnarflokkanna að skipuleggja starf sitt þannig að nefndir þingsins fái það svigrúm til starfa sem nauðsyn krefur svo vanda megi alla málsmeðferð á Alþingi og skapa eðlilegt rými fyrir umræður. Umræður á Alþingi um mál eru lykill að umræðum í þjóðfélaginu og því geysilega mikilvægar. Við þurfum að gera meiri kröfur til okkar sjálfra í þessum efnum en verið hefur um sinn. Að þessu vil ég vinna sem forseti í eins góðri sátt við þingmenn og kostur er, úr hvaða þingflokki sem þeir eru.

Nú er að hefjast annað kjörtímabilið eftir að kjördæmaskipan var breytt. Þeir þingmenn sem sátu á Alþingi síðasta kjörtímabil og höfðu áður unnið í gömlu kjördæmunum geta talað af reynslu af því að starfa í kjördæmunum eftir þá miklu breytingu.

Öllum má ljóst vera að aðstæður þingmanna til að rækja hlutverk sitt eru mjög ólíkar. Þingmenn í Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi búa við þær aðstæður að ferðast hundruð kílómetra til þess að komast milli kjördæmamarka og sinna eðlilegri og nauðsynlegri vinnu sinni við að halda tengslum og skynja og skilja kjör og aðstæður íbúanna og halda þeirri pólitísku tengingu við kjósendur sem nauðsynleg er.

Í þessum þremur landstóru kjördæmum er mest af náttúruauðlindum þjóðarinnar nýtt af íbúunum sem eiga allt undir sól og regni og því að löggjöf og allar aðstæður til búsetu séu hagstæðar og að þingmenn viðkomandi kjördæma skynji og skilji aðstæður fólksins. Það verður ekki gert nema með því að þingmönnum verði sköpuð betri skilyrði til þess að rækja hlutverk sitt gagnvart hinum dreifðu byggðum.

Ég tel það eitt af mikilvægustu verkefnum forsætisnefndar Alþingis á næstunni að efna til umræðu og standa fyrir úrbótum sem stuðlað geta að því að þingmönnum þessara þriggja kjördæma verði skapaðar hagfelldari aðstæður til að gegna hlutverki sínu við að halda tengslum við íbúa kjördæmanna og tryggja þannig hagsmuni fólksins. Það væri óheillavænleg þróun ef íbúar dreifbýlisins teldu sinn hlut sitja eftir vegna þess að þingmenn hafi ekki starfsaðstöðu og geti ekki sinnt samráði og haldið sambandi við kjósendur.

Ég býð alla alþingismenn velkomna til starfa á 134. löggjafarþingi. Sérstakar hamingjuóskir færi ég þeim alþingismönnum sem nú setjast á þing í fyrsta sinn og bið þeim velfarnaðar í störfum þingsins. Að þessu sinni eru nýkjörnir alþingismenn, þeir sem ekki sátu á síðasta þingi, 24 talsins og hafa aðeins einu sinni áður verið fleiri. Það er gangur lýðræðisins að hér í þingsölum verði endurnýjun, hingað komi nýtt fólk með nýja reynslu, fjölbreytta menntun og fersk viðhorf.

Ný ríkisstjórn er sest að völdum. Ég óska henni velfarnaðar í störfum og vona að samstarf hennar og Alþingis verði farsælt. Sérstaklega óska ég þeim þingmönnum sem stíga nú sín fyrstu spor í ráðherraembætti allra heilla. Meiri hlutinn að baki ríkisstjórninni er óvenjulega stór og það mun væntanlega setja mark sitt á þingstörfin. En þess ber jafnan að minnast að sjónarmið sem taka þarf tillit til fara ekki alltaf eftir þingsætafjölda eða fjölda íbúa í einstökum kjördæmum.

Þingstörf að þessu sinni munu standa í skamman tíma. Í haust bíður nýkjörins þings að takast á við þau verkefni sem úrlausn þurfa að fá, þar á meðal nýrra fjárlaga.

Ég endurtek þakkir til þingheims fyrir að fela mér þetta embætti. Það er von mín að ég megi eiga gott samstarf við alla hv. alþingismenn.