134. löggjafarþing — 1. fundur,  31. maí 2007.

kosning í fastanefndir skv. 13. gr. þingskapa.

[15:56]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að óska forseta til hamingju með kjörið og við væntum að sjálfsögðu góðs samstarfs við hann.

Ég hlýt að gera þær athugasemdir við þá atkvæðagreiðslu sem á að fara að hefjast að eins og það mál snýr að okkur í stjórnarandstöðunni þá kynntu formenn stjórnarflokkanna þetta sem tiltölulega óljós áform fyrir þremur dögum og síðan hefur ekki meira verið um það rætt við okkur. Eins og forseti tók fram byggir þetta á áformum stjórnarflokkanna um að breyta lögum um Stjórnarráð Íslands, sameina og skipta upp ráðuneytum og eftir því sem við höfum skilið á sú skipan mála að taka gildi um næstu áramót. Engu að síður á að fara að leggja til við Alþingi að það kjósi ekki í þingnefndir sínar samkvæmt gildandi lögum og að engar nefndir verði starfandi á þessu þingi hvað varðar landbúnaðarmál, sjávarútvegsmál og efnahags- og viðskiptamál. Ég fæ ekki alveg séð hvernig þetta á að geta gengið eðlilega fyrir sig og maður spyr: Hvað verður ef óskað verður eftir fundum í viðkomandi þingnefndum, ef hér verða flutt þingmál á þessu þingi sem eðlilegt væri að vísa til viðkomandi nefnda? Getur það talist eðlilegur framgangsmáti að engar þingnefndir starfi hér, þess vegna viku, hálfan mánuð eða hvað lengi sem þetta þing kann að vera að störfum sem hafi umboð á viðkomandi sviðum? Hvert ætlar hæstv. ríkisstjórn að vísa frumvörpum sem hún hefur sjálf boðað að verði flutt og heyra undir efnahags- og viðskiptanefnd ef engin nefnd er starfandi á meðan þingið situr fyrr en þá í lok þess? Ég tel að þetta sé fullkomlega óeðlilegur framgangsmáti og eðlilegast væri að hæstv. ríkisstjórn legði áform sín fyrir með skýrum hætti, að við hefðum hér þau frumvörp sem eiga að breyta verkaskiptingu ráðuneyta saman í einum pakka og þá gæti Alþingi tekið ákvarðanir og afstöðu til þess hvernig það vill skipa sínum störfum með hliðsjón af áformuðum breytingum í Stjórnarráðinu. Það er ekki þannig þó að hæstv. ríkisstjórn kunni að telja það eðlilegt að framkvæmdarvaldið í sjálfu sér eigi að hafa frumkvæðisskyldu og skipa innri málum þingsins.

Hér er verið að boða breytingar á þingsköpum Alþingis sem venjan er að þingið sjálft hafi með höndum en ekki framkvæmdarvaldið. Það er að vísu hefð fyrir því og hefur ágerst á síðari árum að menn líti á það sem formsatriði að virða verkaskiptingu löggjafarsamkomunnar og framkvæmdarvaldsins. En mér finnst þetta ekki byrja sérstaklega vel og ég get ekki séð að hæstv. ríkisstjórn hafi með nokkrum hætti lagt málin þannig skýrt fyrir Alþingi að það sé eðlilegt að ætlast til þess að við veitum nú afbrigði við þessa skipan mála. Ég teldi að annaðhvort ætti að fresta allri nefndaskipan þangað til málin liggja ljósar fyrir eða kjósa samkvæmt gildandi lögum í allar fastar nefndir þingsins. Við getum því ekki greitt atkvæði með þessum afbrigðum, herra forseti.