134. löggjafarþing — 1. fundur,  31. maí 2007.

kosning í fastanefndir skv. 13. gr. þingskapa.

[16:03]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég minni á það sem ég sagði áðan, að venjan er sú að Alþingi sjálft hafi hönd í bagga með og sjái um skipan sinna innri mála. Ég minnist þess tæpast að frumkvæði að breytingu á þingsköpum hafi borið að með þeim hætti sem hér virðist eiga að stefna í, að tilkynning komi frá hæstv. ríkisstjórn um að hún hrókeri verkefnum í Stjórnarráði Íslands, hún hyggist leggja til breytingar á þingskapalögum í samræmi við það og ætli síðan þingi, hafandi nánast engar upplýsingar í höndum aðrar en munnlegar lýsingar á ákaflega óljósum áformum meiri hlutans, að bregðast við í framhaldi af því.

Í 13. gr. þingskapa eru taldar upp þær tólf fastanefndir sem starfa á Alþingi og síðan segir, með leyfi forseta:

„Fastanefndir skal kjósa á fyrsta fundi hvers þings og skal kosið hlutbundinni kosningu, sbr. 68. gr. Kosning fastanefnda gildir til upphafs næsta þings.“

Þetta eru reyndar gömlu þingsköpin sem ég er með í höndunum og breytir ekki öllu þó að það sé kosið sé til kjörtímabilsins í heild núna.

Þessu má einungis víkja frá ef tveir þriðju hlutar alþingismanna sem þátt taka í atkvæðagreiðslu samþykkja það. Því kann að reyna á það fyrr en maður ætlaði hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að fara aukinn meiri hluta sinn á Alþingi. Ætlar hún í andstöðu við stjórnarandstöðu að beita afli sínu og þvinga fram afbrigði til að víkja frá gildandi þingskapalögum, sem eru alveg skýr í þessu efni, um að það eigi að kjósa í nefndirnar á fyrsta fundi hvers þings? Ég teldi rétt að hæstv. forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar veltu fyrir sér hvort þeir hafi gert upp hug sinn um að beita afli sínu á þingi með þeim hætti. Ég minni á að ekkert samráð var haft við okkur um þetta annað en að tilkynna okkur um áformin hjá stjórnarliðinu snemma í þessari viku.

Ég endurtek það og tek undir það sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson sagði, að það er auðvelt að sýna fram á að reynt geti á hvort þingnefndir séu starfandi með umboð, ég tala nú ekki um ef tíma tekur að gera þær breytingar sem ríkisstjórnin boðar okkur að gera eigi, ef óskir koma fram um fundi í þingnefndum eða verði flutt mál sem eðli máls samkvæmt ættu að ganga til viðkomandi þingnefnda. Stenst þá að þær séu ekki starfandi og ekki með umboði?

Ég held að það sé ákaflega fátækleg viðbára að mönnum sé að vanbúnaði að kjósa fyrst í nefndir samkvæmt gildandi skipan og breyta því svo þegar niðurstaða er fengin í verkaskiptingu í Stjórnarráðinu, þegar þingskapalögum hefur verið breytt og öðrum þeim lögum sem hljóta að leiða af endurskipulagningunni. Það væri eðlilegasti kosturinn. Allt tæki það þá gildi um næstu áramót.