134. löggjafarþing — 1. fundur,  31. maí 2007.

kosning í fastanefndir skv. 13. gr. þingskapa.

[16:06]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að óska forseta innilega til hamingju, virðulegur forseti, með kjörið. Ég og við þingmenn Framsóknarflokksins eigum von á að eiga mjög gott samstarf við hæstvirtan forseta.

Ég tel að hér sé óeðlilega að verki staðið. Það er ljóst að það er í hæsta máta óeðlilegt að fresta hluta þeirrar kosningar sem kveðið er á um í þingsköpum og síðan eigi að bjarga málum seinna ef eitthvað kemur upp á á sumarþinginu. Þetta er auðvitað ekki boðlegt.

Það á að breyta verkaskiptingu í ráðuneytum og þess vegna ætlar stjórnarmeirihlutinn að fresta þessum kosningum. Ég vil bara spyrja virðulegan forseta: Hvað ætlar virðulegur forseti að gera nú þegar búið er að biðja um að sjávarútvegsnefnd komi saman, ef hún er ekki til? Það er auðvitað réttur þingmanna að fá að ræða mál í nefndum, þrír þingmenn geta beðið um fund í viðkomandi nefnd. Nú þegar er komin fram ósk um það. Hvernig ætlar virðulegur forseti að bregðast við því?

Ég vil líka spyrja, af því að það er búið að boða frumvarp um kauphallir, sem hæstv. viðskiptaráðherra Björgvin G. Sigurðsson taldi mikilvægt að kæmist hér í gegn, eins og fram kom í fjölmiðlum, í hvaða nefnd á það mál að fara? Það er ekki til nein efnahags- og viðskiptanefnd. Á að bíða með það mál þangað til í blálokin og fara þá að vinna í málinu? Þetta er auðvitað óeðlilegt að standa þannig að málum, virðulegur forseti.

Hvað ef það koma fram önnur mál frá stjórnarandstöðunni? Við höfum okkar rétt, eins og ofurmeirihlutinn. Við höfum okkar rétt til að flytja mál. Ef þau mál eru á vettvangi landbúnaðarnefndar, sjávarútvegsnefndar eða efnahags- og viðskiptanefndar, hvert á að vísa þeim málum? Ekki neitt?

Virðulegur forseti. Hér er óeðlilega að verki staðið og við getum ekki stutt þessa gjörð. Það væri eðlilegra að skipa í allar nefndirnar eins og þingsköp gera ráð fyrir og endurskipa síðan þegar búið er að breyta þingsköpunum. Það er alveg hægt að gera það. Það er í okkar valdi. Það er ekki þannig að við þurfum að fara eftir þeim reglum um aldur og ævi sem nú gilda. Það á að breyta þeim. Þá getum við líka breytt nefndum og skipað í nýjar nefndir.

Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé ekki eðlilega að verki staðið. Við framsóknarmenn teljum að ágætt væri að heyra hvernig virðulegur forseti ætlar að snúa sér í þessu, með að kalla saman sjávarútvegsnefnd og hvert boðuð frumvörp ríkisstjórnarinnar eiga að fara, t.d. kaupahallafrumvarpið. Mér finnst eðlilegt að við þingmenn fáum að vita það.