134. löggjafarþing — 1. fundur,  31. maí 2007.

kosning í fastanefndir skv. 13. gr. þingskapa.

[16:09]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er vissulega óvenjulegt að hefja fyrsta þingfund á því að taka ákvörðun um það að fara ekki að þingsköpum. Það er ekki bara ósk stjórnarmeirihlutans að ekki verði kosið í þessar þrjár þingnefndir heldur jafnframt ákvörðun sama þingmeirihluta að svo verði ekki gert vegna þess að þingmeirihlutinn sé það stór að hann geti vikið frá þingsköpum hvenær sem honum sýnist, á hvaða veg sem honum sýnist.

Ég vil vekja athygli á því að þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar er orðin bein stjórnun ríkisstjórnarinnar á Alþingi um innri málefni Alþingis, tekin í viðræðum tveggja forustumanna í íslenskum stjórnmálum. Það er verið að aftengja hefðbundna þinglega meðferð á málum. Þingmenn eru sviptir möguleikanum á að mál sem þeir kunna að leggja fram fái þinglega meðferð, mál sem lúta að sjávarútvegi, að landbúnaði, sköttum og efnahagsmálum. Þau frumvörp eða þau mál sem kunna að verða lögð fram á þessu þingi verða aðeins á borðum þingmanna og komast ekki lengra vegna þess að engin nefnd verður til að taka við þeim og fjalla um þau á þinglegan hátt. Það er ákvörðun stjórnarmeirihlutans að aftengja þinglega meðferð mála að þessu leyti.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að þessi fyrsta för Samfylkingarinnar inn í ríkisstjórn og þaðan inn í þingsali kemur á óvart. Ég átti ekki von á að menn yrðu svo fljótir að aðlagast valdinu að menn næðu þessum hæðum, sem óþekktar eru í þingsögunni. Ég minni á að þingsköp eru viðfangsefni þingflokka og síðast breyttum við þingsköpum í vor með samkomulagi allra þingflokka. Nú hefur verið ákveðið að þingsköp séu viðfangsefni ríkisstjórnar og þingforseti hefur minnt okkur á að hann vilji takmarka umræður á þinginu. Núverandi ríkisstjórn hefur styrk til að stöðva umræður um þingmál hvenær sem henni sýnist, takmarka umræður um hvaða mál sem er eða jafnvel banna umræður um mál. Núverandi ríkisstjórn getur t.d. ákveðið að ekki fari fram nein umræða um fjárlög íslenska ríkisins ef henni dettur það í hug. Sjá menn ekki í hvaða fen við erum að stefna, virðulegi forseti, ef svo er komið að jafnvel hæstv. iðnaðarráðherra, sem jafnan hefur mjög gaman af því að taka þátt í umræðum, (Forseti hringir.) skyldi ekki fá að tala í umræðum um fjárlög?