134. löggjafarþing — 1. fundur,  31. maí 2007.

kosning í fastanefndir skv. 13. gr. þingskapa.

[16:19]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að árétta það að þingsköp hafa verið viðfangsefni þingmanna sjálfra og þingflokkanna sem þeir eru í. Þau hafa verið afgreidd með samkomulagi. Menn hafa sest niður, rætt um breytingar á þingsköpunum, náð niðurstöðu og síðan flutt málið saman.

Breytingin er sú að ríkisstjórnin hefur farið út úr þessum farvegi, það er orðið ríkisstjórnarmál hvernig menn hafa þingsköpin í þessum sal. Það er mikil breyting. Hún grundvallast á hinum mikla styrk stjórnarsamstarfsins, þetta er ríkisstjórn hins mesta meiri hluta sem getur gert það sem honum sýnist í krafti þess að varnaglaákvæðið í þingsköpunum segir að víkja megi frá þeim ef tveir þriðju þingmanna eru því samþykkir. Það töldu menn nauðsynlegt til að tryggja að samkomulag væri um breytingar á þingsköpum og tryggja það að stjórn og stjórnarandstaða næðu saman um breytingar.

Nú eru þær óvenjulegu aðstæður að stjórnin er svo stór að hún er komin yfir þetta varnaglaákvæði. Þá kemur í ljós að freistingin að beita meiri hlutanum er of mikil til þess að ný ríkisstjórn standist hana. Mig langar að spyrja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson: Hvað hefði hann talið hæfilega umræðu um Ríkisútvarpið ohf. hér í þingsölum á síðasta kjörtímabili? Hvenær hefði Samfylkingin talið nóg rætt ef hún hefði verið í ríkisstjórn þá við þær aðstæður sem hún er núna að geta stöðvað umræðuna hvenær sem er með einfaldri samþykkt í þingsalnum? Hvenær hefði Samfylkingin talið nóg rætt um vatnalögin? Það hefði kannski verið seint. Ég man ekki betur en að menn hafi rætt um Ríkisútvarpið í 100 klukkutíma og að Samfylkingin hafi lagt langmest til í þeirri umræðu, ágætar ræður sem voru mjög fróðlegar. En nennir hv. stjórnarmeirihluti að sitja í 100 klukkutíma undir umræðum ef hann veit að hann þarf þess ekki? Er þá ekki freistandi að segja sem svo: Við höfum ákveðið að umræður um þetta mál standi í 10 klukkutíma?

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að þegar ríkisstjórnin fer að beita þessu ákvæði strax í svona litlu máli hrannast upp grunsemdirnar um að freistingin verði svo mikil og hún standist það ekki í erfiðari málum.