134. löggjafarþing — 2. fundur,  31. maí 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:13]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Forseti Alþingis. Góðir áheyrendur. Ég vil í upphafi máls míns óska nýkjörnum alþingismönnum til hamingju og bjóða þá velkomna til starfa hér á þingi. Ég vil jafnframt óska nýrri ríkisstjórn og nýjum ráðherrum velfarnaðar í störfum, vandasömum verkefnum. Ég vil þakka öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum fyrir okkur vinstri græn í kosningabaráttunni og auðvitað ekki síst kjósendum fyrir viðtökurnar og stuðninginn sem gerði okkur vinstri græn að höfuðsigurvegurum kosninganna.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur nú á einu ári tekið sér þriðja sætið í stærðarröð íslenskra stjórnmálaflokka bæði í sveitarstjórnar- og alþingiskosningum. Við erum stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn með níu þingmenn og erum með menn kjörna í öllum kjördæmum landsins í fyrsta sinn. Það býr mikið og vaxandi afl í okkar ört stækkandi hreyfingu og ég, eins og forsætisráðherra, horfi björtum augum fram á veginn. Enginn flokkur getur státað af sambærilegri endurnýjun hlutfallslega, eins miklum stuðningi og þátttöku ungs fólks og hlutfall kvenna er hæst í okkar þingflokki. Reyndar skipa hann þessa stundina sex konur og þrír karlar og mér er til efs að slík hlutföll hafi áður sést hér á Alþingi í blönduðum þingflokki.

Nú spyrja sjálfsagt einhverjir: En eru það ekki mikil vonbrigði fyrir vinstri græn að vera ekki í ríkisstjórn? Er það ekki áfall fyrir ykkur sem höfuðsigurvegara kosninganna? Því svara ég þannig: Við vorum að sönnu reiðubúin, við gerðum allt sem við gátum til þess að hægt yrði að mynda raunverulega félags- og umhverfisverndarstjórn, raunverulega græna velferðarstjórn sem stæði undir nafni. Við lögðum alla orku okkar í það að knýja fram umskipti í stjórnmálum landsins og fella ríkisstjórnina. Og vel að merkja, það tókst að knýja fram stjórnarskipti. Hvað var það sem gerði það mögulegt? Hvað var það sem gerir það að verkum að nú situr ný ríkisstjórn? Það var ekki tap Samfylkingarinnar upp á rúm 4 prósentustig og mínus tveir þingmenn sem gerði stjórnarskipti möguleg. Það var ekki óbreytt staða Frjálslynda flokksins. Það voru þaðan af síður rúm 3% og 5.900 atkvæði Íslandshreyfingarinnar sem féllu dauð sem komu ríkisstjórninni á kné. Nei, það var kosningasigur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem gerði stjórnarskiptin möguleg. Það var sem sé út á kosningasigur vinstri grænna sem draumur samfylkingarfólks um að komast loksins í ríkisstjórn rættist — kannski ekki endilega óskaríkisstjórnina, kannski ekki ríkisstjórnina þar sem Samfylkingin var stærsti flokkur landsins, kannski ekki ríkisstjórnina sem Samfylkingin leiddi án þátttöku Sjálfstæðisflokksins, kannski ekki ríkisstjórnina þar sem kona var í fyrsta sinn gerð að forsætisráðherra. Nei, en ríkisstjórn samt. Og við skulum ætla að Samfylkingin sé í henni af því að hún vilji vera þar, af því að henni sé sjálfrátt. Eða var þessi stjórn með einhverjum hætti þvinguð fram eins og presturinn orðaði það í Dómkirkjunni í dag?

Svo undarlega bregður við að Samfylkingin fer inn í ríkisstjórnina sína undir ásökunum í garð vinstri grænna um að hún sé ekki að gera eitthvað allt annað, þ.e. Samfylkingin. Því vil ég gjarnan spyrja: Er þess að vænta að Samfylkingin geri það fljótlega upp við sig hvort þetta er ríkisstjórnin sem hún vill vera í? Er Samfylkingin í þessari ríkisstjórn af því að hún trúir því að hún sé góð? Er Samfylkingin í þessari ríkisstjórn af því að stefna hennar sé ágæt? Eða er Samfylkingin bara í þessari ríkisstjórn af því að sá vondi maður sem hér stendur hrakti hana til þess?

Nú það í sjálfu sér þannig að ég get vel tekið það á mínar herðar fyrir Samfylkinguna ef hana skortir sjálfa réttlætingu fyrir því sem hún er að gera, ef hún hefur engin önnur rök til að réttlæta veru sína undir sænginni hjá íhaldinu en mig, enga aðra afsökun en áburðinn um að ég og við vinstri græn höfum gert myndun annars konar ríkisstjórnar ómögulega. En ég vil þá fara að vita, hvað líður senn, hversu langt guðföðurskyldur mínar ná í þessum efnum. Eiga þær að endast Samfylkingunni sem allsherjarafsökun og réttlæting næstu fjögur ár eða jafnvel lengur? Eða er þetta bara til að sefa óánægjuraddir í baklandi Samfylkingarinnar tímabundið? Ég vona a.m.k. að föðurhlutverk mitt sé ekki svo bókstaflegt að ég sé meðlagsskyldur og verði að borga Geir H. Haarde fósturlaun vegna krógans næstu fjögur árin.

Auðvitað er dapurt til þess að vita ef Samfylkingin er nauðug viljug í þessu samstarfi og það leyndi sér vissulega ekki a.m.k. ekki hvað Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra varðaði að honum var það allt þvert um geð sem var að gerast dagana fyrir stjórnarmyndun. Það sá öll þjóðin hversu harmþrungið ráðherraefnið var. En ábyrgðina hefur hinn sjónumhryggi jafnaðarmaður sent og skrifað á réttan stað. Sá voðalegi maður sem ber ábyrgð á því að Össur Skarphéðinsson féllst tárvotum augum og gegn vilja sínum á að gegna ráðherradómi heitir Steingrímur J. Sigfússon og stendur hér. En vonandi fer nú að rætast úr fyrir okkar manni því að hann er þrátt fyrir allt kominn heim á kunnuglegar slóðir, í fangið á íhaldinu þar sem hann undi um skeið sem ráðherra undir merkjum Alþýðuflokksins og lagði þar á skólagjöld og sjúklingaskatta í þágu jafnaðarstefnunnar svo eitthvað sé nefnt. Já, svona er nú hátt á því risið þegar Samfylkingin loksins kemst í ríkisstjórn að það þarf að kenna öðrum um, bera sakir á aðra, varpa ábyrgðinni af sjálfum sér yfir á aðra og kaupa sér fjarvistarsönnun.

Auðvitað er veruleikinn sá að tveim, þrem vikum fyrir kosningar fór forusta Samfylkingarinnar á taugum, gafst upp í baráttunni við að fella ríkisstjórnina, hóf að undirbúa stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum, fór að strjúka honum með hárunum síðustu vikur kosningabaráttunnar, stakk Evrópustefnunni og öðrum ágreiningsefnum ofan í skúffu og hóf að semja og æfa leikritið um að kenna vinstri grænum um og eyddi að lokum síðustu kröftunum í slagsmál við okkur um fylgi úti á vinstri vængnum í staðinn fyrir að reyna að ná því af ríkisstjórninni. Strax á kosninganóttina hófu einstakir talsmenn Samfylkingarinnar upp sönginn um að vinstri græn væru að eyðileggja möguleikann á myndun vinstri stjórnar.

Samfylkingin setti stefnuna á Sjálfstæðisflokkinn þegar fyrir kosningar og hóf mikla ásókn á hann strax að þeim loknum og fékk reyndar furðugóðar viðtökur eins og best sést á því að Sjálfstæðisflokkurinn hélt Framsókn uppi á snakki, lét jafnvel líklega við fleiri flokka meðan hann gekk frá öllu saman bak við tjöldin við Samfylkinguna. Og sá einstaki atburður varð á uppstigningardag að Geir H. Haarde forsætisráðherra sló af sína eigin ríkisstjórn með Framsókn og myndaði nýja með Samfylkingunni í sömu setningunni, í sömu setningunni í beinni útsendingu, allt klappað og klárt, formsatriði að fara til Bessastaða. Þannig var nú þetta.

Um virðingu fyrir settum leikreglum og hreinskiptni í samskiptum manna á meðal þessa liðnu daga segi ég það eitt að þar sem stjórnarflokkarnir eiga í hlut og forustumenn þeirra virðist mér enn sannast hið fornkveðna að sækjast sér um líkir. Tímamótin sem urðu í ríkisstjórnarsamstarfinu eru ekki fólgin í því að nýr flokkur hafi leyst Framsókn af hólmi sem hjól undir valdavagni Sjálfstæðisflokksins. Þau eru þaðan af síður fólgin í stefnubreytingu því að hún varð engin nema fáeinar gráður til hægri. Tímamótin eru fólgin í uppgjöf Samfylkingarinnar öðru fremur, uppgjöfinni gagnvart því að vera stóra mótvægið við Sjálfstæðisflokkinn, uppgjöfinni gagnvart því að vera forustuafl ríkisstjórnar án aðildar Sjálfstæðisflokksins.

Það skyldi nú ekki vera að þörfin fyrir afsökun, blóraböggul, sökudólg, sem Samfylkingin hefur svo snilldarlega sameinast um að finna í ræðumanni — og er nú ekki oft sem þau ná að sameinast svona innilega og til hamingju með það, samfylkingarfólk — sé sprottin af þeim ástæðum að auðvitað veit samfylkingarfólk í hjarta sínu að það er að gefast upp. Tilrauninni um stóra mótvægisaflið við Sjálfstæðisflokkinn, að koma honum frá völdum, skaffa landsmönnum annars konar ríkisstjórn, annars konar stjórnarstefnu, er lokið með uppgjöf. Nú sér félagshyggjufólk og umhverfisverndarsinnar það svart á hvítu að mótvægið við Sjálfstæðisflokkinn verður ekki byggt upp með því að telja hausa í flokki sem er honum svo skyldur, liggur honum svo nálægt í stefnumálum að hann rennur saman við hann í ríkisstjórn án nokkurra vandkvæða.

Þegar fréttir voru sagðar af stjórnarmyndunarviðræðunum í síðustu viku voru þær allar á einn veg: Einstaklega góður andi í viðræðunum, enginn ágreiningur, aðeins áherslumunur. Eina uppstyttan sem varð í viðræðunum var vegna þess að menn þurftu að komast í veislu. Það þurfti ekki að fresta viðræðum vegna ágreinings, nei, nei, nei, menn þurftu að komast á tónleika og í veislu. Það var nú það.

Frá sjónarhóli Sjálfstæðisflokksins er valið auðvitað skiljanlegt. Með átakafælinn og værðarsækinn formann við stýrið er valinn þægilegasti kosturinn, leikurinn frá 1995 endurtekinn, gripið til þess flokks sem næstur Sjálfstæðisflokknum stóð og dugði honum til að framlengja völd sín þegar Framsókn var útslitin, hafði misst helming fylgis síns og 8 af 15 þingmönnum sem lagt var upp með. Þannig er nú þetta. Vissulega má þó viðurkenna, svo eitthvað sé nú séð skemmtilegt við þetta, að Sjálfstæðisflokkurinn yngir hressilega upp hjá sér þegar Samfylkingin er borin saman við hinn níræða Framsóknarflokk.

Það sem ég vil svo segja um framgöngu ríkisstjórnarinnar efnislega að öðru leyti er þetta: Ríkisstjórnin byrjar illa í umhverfismálum. Uppgjöf Samfylkingarinnar eftir nýtilkominn áhuga á þeim málaflokki er aumkunarverð. Formönnum stjórnarflokkanna tókst að verða margsaga um innihald stjórnarsáttmálans hvað varðar Þjórsárver nokkurn veginn samtímis því að hann kom fyrir almannasjónir.

Við vinstri græn höfum nú með höndum mikilvægasta hlutverk sem við höfum hingað til haft í íslenskum stjórnmálum sem forustuafl stjórnarandstöðunnar og við munum ekki bregðast skyldum okkar í þeim efnum. Við munum ekki gleyma mikilvægi grundvallarhugsunarinnar um sjálfbæra þróun og sjálfbæra framvindu þó að ríkisstjórnin með grænan fálka af síðum Morgunblaðsins og Fagra Ísland í farteskinu sé svo seinheppin að minnast ekki einu orði á sjálfbæra þróun hvorki í stjórnarsáttmála né í stefnuræðu og er þó komið árið 2007, takið eftir því.

Við vinstri græn tökum við keflinu sem Samfylkingin hefur nú rétt okkur með uppgjöf sinni gagnvart Sjálfstæðisflokknum og munum ekki bregðast hlutverki okkar sem hinn eiginlegi og eini hugmyndafræðilegi og pólitíski höfuðandstæðingur hægri stefnunnar á Íslandi.

Ég óska landsmönnum alls góðs og gæfuríks sumars og þakka áheyrnina.