134. löggjafarþing — 2. fundur,  31. maí 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:26]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ágæta samstarfsfólk á Alþingi. Góðir Íslendingar. Í dag kemur saman í fyrsta sinn að loknum kosningum nýkjörið Alþingi. Þingmenn mæta til leiks fullir eftirvæntingar og löngunar til að takast á við áhugaverð og krefjandi verkefni í þágu lands og þjóðar. Vafalaust ekki síst 24 þingmenn sem í dag koma nýir á þing. Óvenjulegur í þeirra hópi er auðvitað maður sem árið 1971 settist yngstur allra á Alþingi það árið en snýr nú aftur, 36 árum síðar, sem elstur í hinum nýja þingheimi. Þessi óvenjulegi ferill er okkur hinum áminning um að vegferð hvers og eins sem velur að ganga stjórnmálaleiðina verður alltaf einstök og ógjörningur að skipuleggja hana fyrir fram. Ég óska öllum nýkjörnum fulltrúum á hinu háa Alþingi velfarnaðar á stjórnmálaleiðinni þar sem ný tækifæri bíða við hvert fótmál.

Ég vænti mikils af samstarfinu við þingið og hlakka til að vinna í umboði þess. Ný ríkisstjórn er byrjuð á því verki að stokka upp verkaskiptingu ráðuneyta og innleiða ný vinnubrögð hjá framkvæmdarvaldinu. Ég vil leyfa mér að færa fram þá ósk að við sameinumst um að bæta vinnubrögð einnig hér á Alþingi Íslendinga. Okkur ber að vera öllu lýðræðislegu félagsstarfi í landinu góð fyrirmynd. Við eigum að leita sáttaleiða þegar þær eru færar en virða grundvallarmun á afstöðu án svikabrigsla eða stóryrða.

Hannes Pétursson er eitt okkar bestu skálda og hann segir á einum stað:

Lágmælt orð

ljóðsins, þau troðast undir

í styrjöldum – einnig

í stórkarlalegu þusi

upplausnartíma þegar dagarnir

eru á dreif eins og fjúkandi hey.

Stundum á síðustu árum hefur opinbert líf á Íslandi turnast skyndilega og hiti hinna pólitísku deilna orðið meiri en góðu hófi gegnir. Það er í daglegu tali nefnt fár og við þær aðstæður, eins og skáldið segir svo vel, eru dagarnir á dreif eins og fjúkandi hey. Dagsverkin eru þá líka ódrjúg og kröftunum illa varið. Og í hinu stórkarlalega þusi átakastjórnmála hverfur mikilvægt inntak stjórnmálastarfsins, þ.e. að hlusta á raddir sem hafa ekki endilega hæst en hafa þó frá svo mörgu að segja og það verkefni að breyta vandamálum hins daglega lífs í opinber úrlausnarefni. Ég vil í dag sem formaður stjórnmálaflokks sem gengið hefur til samstarfs í nýrri ríkisstjórn horfa til framtíðar til þeirra verkefna sem íslenskt samfélag kallar á að unnin séu.

Góðir Íslendingar. Til þess að verkefnin verði unnin þarf hina víðtæku sátt sem nú er efnt til og nýtt hugarfar, ný vinnubrögð, samræðu og virðingu fyrir ólíkum skoðunum. Ný ríkisstjórn ætlar sér að verða frjálslynd umbótastjórn. Umskiptin eru söguleg af mörgum ástæðum, m.a. þeim að Samfylkingin sem stofnuð var sem nýr stjórnmálaflokkur aldamótaárið 2000 stígur nú í fyrsta sinn fram sem ríkisstjórnarflokkur. Þetta eru tímamót í sögu jafnaðarflokks Íslands, framsækins umbótaflokks sem reistur er á hornsteinum jafnaðarstefnunnar um jöfnuð, frelsi og samábyrgð. Jafnaðarstefnan er erindi okkar, á Íslandi eigum við öll að vera jöfn og frjáls hvort sem við erum ung eða gömul, hver sem við erum eða viljum geta orðið. Jafnaðarflokkur Íslands er umbótasinnaður og lýðræðissinnaður og við viljum skila venjulegu fólki árangri sem um munar.

Í kosningunum gengum við samfylkingarfólk til íslenskra kjósenda með erindið um betri almannaþjónustu í forgangi, metnaðarfulla aðgerðaáætlun í þágu íslenskra barna undir heitinu Unga Ísland, miklu hraðari uppbyggingu hjúkrunarrýma og bætta þjónustu við aldraða Íslendinga. Strax í upphafi nýs þings þegar aðeins rúmar tvær vikur er liðnar frá kjördegi er í undirbúningi umbótamál til afgreiðslu hér á Alþingi, annars vegar um aðgerðaáætlun fyrir börnin í landinu og hins vegar fyrstu aðgerðir í þágu aldraðra. Á haustþingi þegar lengri tími hefur gefist til undirbúnings þingmálum munu væntanlega fleiri þingmál um aðgerðir í þágu aldraðra fylgja í kjölfarið.

Eitt af veigamestu áhersluatriðum í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er átak í jafnréttismálum. Ríkisstjórnin mun grípa til markvissra aðgerða til að draga úr óútskýrðum kynbundnum launamun hjá ríkinu með það að markmiði að minnka hann um helming á kjörtímabilinu. Enginn vafi er í mínum huga að til að ná þessu markmiði þarf sérstaklega að endurmeta kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meiri hluta. Það gerðum við hjá Reykjavíkurborg þegar ég var borgarstjóri og það er löngu tímabært að slíkt endurmat eigi sér stað hjá ríkisvaldinu. Jafnframt mun ríkisstjórnin leita eftir samvinnu við aðila vinnumarkaðarins þar sem leitað verði leiða til að eyða launamun kynjanna á almennum vinnumarkaði. Þá segir í stjórnarsáttmálanum að réttur launafólks til að skýra frá launakjörum sínum, ef það svo kýs, verði tryggður.

Jafnrétti kynjanna er mikið réttlætismál og ég er stolt af því að ný ríkisstjórn hefur mótað þá stefnu að jafnrétti í reynd verði leiðarljós í allri stefnumótun hennar. Þetta er grundvallaratriði því það verður aldrei full sátt í samfélaginu meðan konur og karlar sitja ekki við sama borð í kjörum og áhrifastöðum. Við verðum líka að gera miklu betur í aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi. Það er líka jafnréttis- og mannréttindamál að trúfélög fái heimild til að staðfesta samvist samkynhneigðra.

Við höfum mikið verk að vinna hér heima við að ná jafnvægi í efnahagsmálum og sátt í velferðarmálum, umhverfismálum og jafnréttismálum en við höfum einnig verk að vinna á alþjóðavettvangi. Loftslagsváin er alþjóðamál sem mun hafa gríðarlega þýðingu á næstu árum og sem íslenska utanríkisþjónustan mun leggja mikla áherslu á. Þá verðum við Íslendingar að setja okkur mælanleg, metnaðarfull markmið í aðgerðum gegn gróðurhúsaáhrifum.

Eitt þeirra mála sem reynst hefur þjóðinni þungbært á síðustu árum er afstaðan til Íraksstríðsins. Við þekkjum öll sögu þess máls. Það var fyrri ríkisstjórn Íslands sem tók þá umdeildu ákvörðun að styðja innrásina í Írak, m.a. í andstöðu við minn flokk. Þeim stuðningi fylgir siðferðileg ábyrgð sem við sem þjóð verðum að horfast í augu við og axla. Ákvörðunin um innrásina í Írak var tekin á röngum forsendum og stuðningur stjórnvalda á Íslandi var það einnig. Að mínum dómi átti hann aldrei að koma til greina. Ný ríkisstjórn lýsir því yfir að hún harmar þennan stríðsrekstur. Hún styður hann því ekki. Þetta er mikilvæg yfirlýsing um nýja stefnumótun um utanríkisstefnu þar sem friðsamleg lausn deilumála og virðing fyrir alþjóðalögum og mannréttindum verða leiðarljós stjórnvalda á alþjóðavettvangi. Ég hygg að þjóðarsátt sé um það að Íslendingar eigi um ókomna tíð að ganga fram í samfélagi þjóða sem friðflytjandi. Þjóð menningarsamskipta, viðskipta og útrásar, stolt af landi okkar og þjóð en jafnframt meðvituð um nauðsyn vits þess sem víða ratar eins og segir í Hávamálum. Ný ríkisstjórn lýsir því yfir að í framtíðinni munu allar meiri háttar ákvarðanir á sviði utanríkismála verða teknar í samráði við utanríkismálanefnd Alþingis.

Virðulegi forseti. Fram undan eru breyttir tímar, tímar sátta og samstöðu, tímar framþróunar og spennandi tækifæra á öllum sviðum. Íslendingar hafa á undanförnum árum flutt þekkingu sína og áræði til útlanda og haslað sér völl í viðskiptalífi og á fræðasviðinu þannig að eftir hefur verið tekið. Ríkisstjórnin vill leggja sitt lóð á vogarskálar enn frekari útrásar og þekkingarsköpunar. Þar þarf að huga að frekari fjárfestingu í menntun og rannsóknum og styðja sérstaklega við bakið á efnilegum sprotafyrirtækjum, svo sem á sviði hátækni og þekkingariðnaðar. Útflutningur þekkingar og hugvits á sviði orkuframleiðslu er hið nýja spennandi sóknarfæri.

Atvinnustefna nýrrar ríkisstjórnar á að beinast að því að hlúa að vaxtarsprotum á sem flestum sviðum, gæta jafnræðis milli atvinnugreina og skapa heilbrigt samkeppnisumhverfi. Þar mun okkur farnast best ef frelsi einstaklinga og fyrirtækja til athafna helst í hendur við heilbrigða samkeppni og eðlilega verðmyndun í þágu neytenda. Vinna þarf að því að frjáls samkeppni og fullt atvinnufrelsi nái einnig til hefðbundinna greina, svo sem sjávarútvegs og landbúnaðar, en gæta þess þó ætíð að umbætur og breytingar eigi sér stað í sanngjörnu samráði við hagsmunaaðila í viðkomandi greinum.

Virðulegur forseti. Það hefur verið ánægjulegt að finna mikinn stuðning og velvilja landsmanna við hina nýju ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar sem nú hefur tekið til starfa. Við munum nálgast verkefnið af mikilli ábyrgð með heill allrar þjóðarinnar í huga og þann einlæga ásetning að vinna landi og þjóð gagn á þeim árum sem fara í hönd. Þetta verður vandasöm sigling, ekki síst í efnahagsmálum og þar verður mikilvægt að eiga gott samráð við aðila vinnumarkaðarins og aðra hagsmunaaðila. Ríkisstjórnin þarf einnig að gæta þess að eiga gott samstarf við alla flokka á Alþingi jafnframt því sem staðinn verði vörður um sjálfstæði Alþingis og eftirlitshlutverk þess.

Fyrir hönd Samfylkingarinnar óska ég landsmönnum öllum gæfu og gengis á komandi árum. — Ég þakka áheyrnina.