134. löggjafarþing — 2. fundur,  31. maí 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:04]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Það er við hæfi að óska nýrri ríkisstjórn til hamingju í upphafi sumarþings og óska henni og öllum þingmönnum velgengni í störfum sínum á þessu þingi og kjörtímabili.

Við vinstri græn getum vel unað við okkar hlut í nýafstöðnum kosningum, enda unnum við þar mestan sigur allra. Þetta þarf ekki að koma á óvart. Við höfum haslað okkur völl sem framsýnn vinstri flokkur, flokkur sem berst gegn kúgun í hvaða formi sem hún birtist. Við byggjum stefnu okkar á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og höfum skýra framtíðarsýn í þeim anda. Sú framtíðarsýn er hvorki meira né minna en kjarni flokksins og með hana höfum við ekki hörfað undan veðri og vindum hvernig sem blásið hefur. Nú er það metnaður okkar að veita núverandi ríkisstjórn öflugt og málefnalegt aðhald út frá þessari hugmyndafræði. En um hvað mun það aðhald snúast?

Hæstv. forsætisráðherra kynnti hér stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Sumu ber þar að fagna, t.d. þeirri áherslu sem þar er lögð á málefni aldraðra og barna. Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að móta skuli heildstæða stefnu í málefnum barna sem er auðvitað löngu tímabært. Þar skiptir máli að vera framsýnn. Markmiðið á að vera það að hvert barn sem fæðist á að eiga rétt á sömu heilsugæslu og önnur börn. Skólakerfið á ekki að auka eða viðhalda mismunun sem börn búa við frá fæðingu vegna þess að sum fæðast rík og önnur fátæk. Við eigum að tryggja öllum börnum það frelsi að fá að mennta sig og þroska hæfileika sína, það frelsi að njóta sömu heilbrigðisþjónustu og aðrir.

Þá er auðvitað fagnaðarefni að hér eigi að hraða uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma og auðvitað viljum við biðlistana burt eins og Samfylkingin lofaði fyrir kosningar þó að eitthvað sé kannski farið að draga úr þeim loforðum, farið að heyrast að biðlistar verði alltaf til, og er þó stjórnin ekki nema nokkurra daga gömul. Raunsæi er ágætt en vonandi gufa þó góðar fyrirætlanir ekki svo hratt upp að þær verði gleymdar í næsta mánuði.

Hugmyndir ríkisstjórnarinnar um heilbrigðiskerfið valda mér og fleirum áhyggjum. Þar er rætt um svokallaða blandaða fjármögnun sem þýðir auðvitað einungis meiri einkarekstur. Auðvitað skiptir máli að fé sé skynsamlega varið í heilbrigðiskerfinu og það á að vera hlutverk hins opinbera að gera einmitt það. Hins vegar mega sjónarmið gróðans ekki ráða för þegar kemur að lífi og heilsu landsmanna. Undanfarna tvo áratugi hafa komugjöld í heilbrigðiskerfinu vaxið hratt og þannig hefur skattheimta á sjúklinga aukist á sama tíma og skattalækkanir hafa verið básúnaðar. Þess vegna vörum við vinstri græn við gróðasjónarmiðum í heilbrigðiskerfinu. Við Íslendingar viljum ekki leiðast út á þá glapstigu að þeir sem hafa fé milli handanna geti borgað meira fyrir betri þjónustu og hinir sitji eftir, verði undirmáls í samfélaginu.

Margt fleira mætti tína til úr stjórnarsáttmálanum sem bendir til þess að þegar kemur að stefnumálum Samfylkingarinnar hafi fjallið tekið jóðsótt og fæðst lítil mús. Hvað varð um stóru orðin um að taka ætti Ísland af lista hinna viljugu þjóða? Það er full ástæða til að harma þá sorglegu ákvörðun að gera okkur Íslendinga að opinberum stuðningsmönnum innrásarinnar í Írak, ekki aðeins stríðsreksturinn. Skýr og skorinorð yfirlýsing um að stuðningsyfirlýsingin hafi verið mistök væri nýrri ríkisstjórn sæmandi og við skulum átta okkur á því að þetta er ekki fortíðarmál, heldur snýst um það hvernig við tökum ákvarðanir í ríkisstjórn og hér á Alþingi.

Að lokum vakti það athygli mína að lítið sem ekkert er minnst á lýðræði í stjórnarsáttmálanum. Hin nýja ríkisstjórn hefur einstaklega sterkan þingmeirihluta eins og kom fram í dag á fyrsta degi þingsins þegar afbrigðum var beitt. Því skiptir meira máli en nokkru sinni fyrr að staða Alþingis sé tryggð sem löggjafarsamkundu þjóðarinnar. Nú skiptir máli að breyta vinnubrögðum hér á þingi, og reynir auðvitað á þann flokk sem hvað mest hefur talað um samræðustjórnmál að tryggja samráð og samtal við stjórnarandstöðuna enda hreint ekki sjálfgefið að ríkisstjórn fari með öll völd á þingi. Það er lífsnauðsynlegt að hér fái allar skoðanir að njóta sín.

Með leyfi forseta vitna ég til Johns Stuarts Mills sem sagði:

„En skoðanir eru ekki einkaeign. Ef skoðun er meinað að njóta sín, þá er gervallt mannkyn rænt eign sinni. Komandi kynslóðir bíða tjón ekki síður en þær, sem nú lifa, og þeir, sem öndverðir eru skoðuninni, bíða meira tjón en hinir sem aðhyllast hana. Sé skoðunin rétt, glata menn færi á að hverfa frá villu síns vegar. Sé hún röng, missa menn næstum jafnmikils, þeirrar skýrari skynjunar og fjörmeiri myndar af sannleikanum, sem birtist, þegar sönnu og lognu lýstur saman.“

Þannig er lýðræðið. Það þarf að halda öllum skoðunum til haga og það er undir okkur komið að Alþingi verði sá pólitíski umræðuvettvangur þar sem öll sjónarmið fá að njóta sín. Með þá von í brjósti að þingmenn deili þessari skoðun óska ég okkur öllum farsældar í störfum okkar á þessu þingi og þeim sem síðan koma. — Góðar stundir.