134. löggjafarþing — 2. fundur,  31. maí 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:16]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Ný ríkisstjórn hefur tekið við, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, ríkisstjórn sem hefur svo mikinn meiri hluta að Samfylkingin getur hæglega öll setið hjá í málum og Sjálfstæðisflokkurinn samt náð málum í gegnum þingið. Slík staða útheimtir að við í stjórnarandstöðunni veitum meiri hlutanum sterkt aðhald og þegar okkur finnst hann bera af leið er okkur skylt að veita eins öfluga mótspyrnu og okkur er unnt. Góð mál munum við hins vegar styðja af alhug. Framsóknarflokkurinn mun því veita aðhald á sama tíma og hann mun tala fyrir sinni framfarastefnu þar sem manngildið er ofar auðgildi.

Meðal stærstu verkefna í íslenskum stjórnmálum í dag er að tryggja efnahagslegan stöðugleika og samkeppni á markaði. Við verðum að ná niður vöxtum og verðbólgu með markvissum aðgerðum. Uppi eru miklar efasemdir um að þessi ríkisstjórn geti ráðið við efnahagsmálin því að sagan segir okkur að sömu stjórnmálaöfl hrökkluðust úr Stjórnarráðinu árið 1995 þar sem upp var komið sundurlyndi á milli þeirra og algjört getuleysi í efnahagsmálum. Þá var tuttugasti hver maður atvinnulaus og velferðarkerfið komið að fótum fram.

Ísland er fámennt land og hér ríkir fákeppni á mörgum sviðum. Við höfum orðið vitni að verðsamráði á markaði. Samkeppniseftirlitið hefur verið eflt, m.a. undir forustu Framsóknarflokksins. Að mati okkar þarf að stórefla Samkeppniseftirlitið þannig að það hafi svigrúm til að rannsaka og taka á einokun og verðsamráði. Neytendur eiga kröfu á því að þeir séu ekki hlunnfarnir í skjóli fámennis landsins.

Ráðherraval stjórnarflokkanna er eftirtektarvert. Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, gaf nýju ríkisstjórninni einkunnina 9,5 á opinberum vettvangi. Hann dró hálfan frá vegna kynjasjónarmiða við ráðherraval Sjálfstæðisflokksins. Hvað gerði Samfylkingin? Jú, Samfylkingin fetaði í fótspor Framsóknarflokksins með því að hafa kynjahlutfall í ráðherrahópi sínum jafnt eins og Framsókn hefur gert um nokkurt skeið með ágætum árangri. Fínt hjá Samfylkingunni að elta okkur.

Sjálfstæðisflokkurinn stóð hins vegar ekki undir væntingum. Hann heldur sig við gamla tímann. Í Sjálfstæðisflokknum stendur allt fast að þessu leyti, ein kona og fimm karlar. Ég fagna því hins vegar að konur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins hafa viðurkennt opinberlega að þær séu ósáttar vegna þessa. Konur munu aldrei ná framgangi ef þær snúa sér þegjandi frá þegar þeim svíður óréttlætið.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Endurmeta ber sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meiri hluta.“

Þetta er að mínu mati athyglisvert séð í því ljósi að snemma á næsta ári eru kjarasamningar við fjölmennar kvennastéttir lausir hjá hinu opinbera, svo sem á heilbrigðisstofnunum. Ef taka á mark á ríkisstjórninni hlýtur hún að ætla sér að bæta verulega kjör þessara stétta og minnka þannig hinn ólgandi vanda sem er á Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi og öðrum heilbrigðisstofnunum.

Virðulegur forseti. Ekki byrjar ríkisstjórnin gæfulega. (Gripið fram í: Hver var heilbrigðisráðherra?) Stefnuyfirlýsingin er útþynnt moðsuða þar sem tæplega er hönd á nokkru festandi. Þar sést líka hvernig Samfylkingin spilaði af sér í samningsstöðunni. Hvað varð um allt tal Samfylkingarinnar um Írak? Sjaldan hefur maður séð flokk éta jafnmikið ofan í sig á jafnskömmum tíma og Samfylkingin gagnvart öllum gífuryrðum sínum um Írak.

Fyrstu málin sem koma upp benda til þess að það sé sundurlyndi í ríkisstjórninni. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í hvalveiðum? Utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir virðist ekki styðja þær en sjávarútvegsráðherrann Einar K. Guðfinnsson gerir það. Hver er stefnan í Þjórsárverum? Forsætisráðherra Geir Haarde telur Norðlingaölduveitu mögulega, iðnaðarráðherrann Össur Skarphéðinsson telur hana ekki vera það. Og ekki kvað nýr umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir nokkuð upp úr um það hér áðan, það heyrði ekki nokkur maður. Strax á fyrstu dögunum er hægt að telja upp mörg mál þar sem greinilegt er að hin nýja ríkisstjórn á eftir að ræða sig niður á haldbæra stefnu til að fylgja. Við framsóknarmenn teljum mikilvægt að ríkisstjórnin nýti tímann sem best á næstu vikum í þau samræðustjórnmál.

Um leið og ég óska þjóðinni allra heilla vil ég einnig óska okkur öllum til hamingju með reykleysið sem tekur gildi á veitinga- og skemmtistöðum núna frá og með miðnætti. — Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.