134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

framkvæmd þjóðlendulaga.

[15:16]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég heyri að hv. þingmaður ætlar að byrja þingferil sinn á því að vera gamansamur eins og mér skilst að hann eigi eðli til og þá sérstaklega með því að fara með miklar sögur af því hversu hátt framsóknarmenn mótmæltu þjóðlendulögunum. Ég man ekki eftir því að þeir hafi greitt atkvæði með þjóðlendulögunum á annan hátt en þorri þingheims þegar þau voru sett.

Mér finnst það líka merkilegt að hv. þingmaður skuli tala um að Morgunblaðið hafi skýrt frá því að breytt tilhögun í þjóðlendumálum mundi engin áhrif hafa. Fyrir hönd hvers skýrði Morgunblaðið frá því? Væntanlega ekki fyrir hönd neins annars en sjálfs síns að það væri skoðun einhvers þar á bæ. Ég geri ráð fyrir því að breytt framkvæmd þjóðlendulaga muni hafa áhrif á það hvernig þau mál ganga fram, hvernig bændur muni þurfa að reka mál sitt fyrir óbyggðanefndinni sem er sá aðili sem úrskurðar í þessum efnum.

Valdsvið fjármálaráðherrans í þessu máli nær ekki lengra en í það hvernig kröfur eru gerðar fyrir óbyggðanefndinni því að eftir að þar er komið tekur annars vegar óbyggðanefndin við, sem er sjálfstæð stjórnsýslunefnd, og úrskurðar í málinu og síðan er hægt að vísa málunum til dómstóla og það eru dómstólar sem þá gera kröfur um hvernig færa beri sönnur á eignarhaldi á landareignum. Þannig er það í dag, þannig hefur það verið í áratugi ef ekki hundrað ár þar sem íslenskir dómstólar hafa fjallað um eignarhald á landi.

Ég hef ekki uppi neinar áætlanir um að leggja til breytingar á (Forseti hringir.) þjóðlendulögunum sem hafa áhrif á það hvernig sönnunarbyrði fyrir dómstólum er.