134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

sumarafleysingar á heilbrigðisstofnunum.

[15:25]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er rétt að á undanförnum árum hefur sumarafleysingavandi heilbrigðisstofnana oft verið mikill en ég vil halda því fram að á sumum stofnunum, t.d. Landspítalanum ríki núna neyðarástand. Við fáum fréttir af því daglega að sjúklingar liggja á göngum og starfsaðstaða fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að sinna þeim sjúklingum er óviðeigandi og þetta er í raun og veru miklu alvarlegri staða núna en hefur verið. Ég held að hæstv. heilbrigðisráðherra verði að fara vel yfir þetta með tilliti til þess að margar hverjar stofnanir verði að fá fjármagn og þá af fjáraukalögum og að það verði að undirbúa það mjög gaumgæfilega að endurskoða daggjaldakerfið og greiðslur til öldrunarstofnana því að það er ljóst að það er undirliggjandi vandi. Það gengur ekki að þetta sé svona ár frá ári og á þenslutímum séu þessar (Forseti hringir.) stofnanir ekki samkeppnishæfar um starfsfólk og þá sérstaklega heilbrigðisstarfsfólk.